Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[12:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Jú, það var móðir mín sem var aðili að málinu enda valin af því að hún fékk gjafsókn, annars hefði þetta nú sennilega ekki orðið möguleiki. En nú erum við með risamál inni í þinginu sem er ÍL-sjóður þar sem, ef fram heldur sem horfir, við eigum svo sannarlega eftir að finna fyrir því fyrir dómstólum hvernig verið er að brjóta á eignarrétti lífeyrissjóðseigenda. En svo er það annað. Ef við kíkjum á það frumvarp sem við erum að fjalla um hér og nú, við erum náttúrlega búin að dansa langt út fyrir það sem er alltaf gaman, þá er staðreyndin sú að hér er bara verið að fegra ásýnd í mínum huga. Hér er bara verið að fegra ásýnd og teygja og jafna greiðslurnar, sem við erum að fá, á milli ára, þetta lítilræði sem við erum að fá með þessum veiðigjöldum og í raun ekkert annað, bara svo það sé sagt. Ég vildi gjarnan fá það fram frá hv. þingmanni líka að það er ekki verið að hækka veiðigjöldin um eina einustu krónu. Þetta kallast núna á íslensku, eins og Covid-aðgerðirnar, að fletja út kúrfuna. En ég segi við hv. þingmann: Það er alltaf rosalega gaman að hlusta á hv. þingmann í ræðu.