153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

alþjóðleg vernd flóttamanna.

[15:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra. Málefni flóttamanna hafa verið rædd hér reglulega í þessum sal undanfarna mánuði. Frá upphafi árs til loka október höfðu komið hingað 764 einstaklingar með vegabréf frá Venesúela og flestir hafa nú þegar fengið hér alþjóðlega vernd og meira að segja svokallaða viðbótarvernd sem tryggir mun ríkari réttindi en t.d. þeir sem koma hingað frá Úkraínu njóta. Það má reikna með að í dag sé fjöldinn farinn að nálgast 1.000 innan ársins. Allt gerist þetta á grundvelli úrskurðar kærunefndar útlendingamála þar sem vísað er til bágborinna kjara fólks í heimalandinu sem vissulega hefur átt bjartari tíma en þá sem sósíalistinn Maduro býður upp á og áður félagi hans Hugo Chávez, allt frá árinu 1999.

Staðan sem vísað er til í úrskurði kærunefndar útlendingamála á við um mörg önnur lönd, því miður. Í gær bárust fréttir af því að sátt hefði náðst að einhverju marki milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Venesúela. Bandaríkin voru fljót til eftir að sáttmálinn var undirritaður og afléttu olíuviðskiptabanni til Venesúela og olíurisinn Chevron fær að halda störfum sínum áfram þar í landi. Venesúela sem hér um ræðir er 25. stærsti framleiðandi olíu í heiminum og áttunda stærsta land innan OPEC. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 var vöxtur á landsframleiðslu um 17,4% á milli ára í Venesúela.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að hælisleitendur frá fleiri löndum en Venesúela gætu fengið alþjóðlega vernd og jafnvel viðbótarvernd á þeim forsendum að aðstæður heima fyrir séu með svipuðum hætti og lýst er í úrskurði kærunefndarinnar gagnvart fólki frá Venesúela? Og í öðru lagi: Í ljósi frétta af viðskiptasamningum um aukna olíuframleiðslu og viðskipti við Venesúela, með hvaða hætti sér hæstv. ráðherra fyrir sér að verði undið ofan af þeirri stöðu sem hér hefur skapast vegna úrskurðar kærunefndar útlendingamála?