Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

Staða leikskólamála.

[16:45]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið að þessari mikilvægu umræðu. Hún er ekki síst mikilvæg í ljósi umræðu um geðheilbrigðismál og mikilvægi þess að hefja geðrækt strax í frumbernsku. Það gerum við með fagmennsku og fræðslu strax á fyrsta skólastigi. Eitt stærsta skref sem tekið var í jafnréttismálum samtímans var að auka aðgengi að leikskólamenntun. Með stóreflingu leikskólans að frumkvæði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og R-listans í Reykjavíkurborg varð leikskólinn ekki lengur geymslustaður fyrir börn einstæðra foreldra og stöku námsmanna heldur menntastofnun fyrir öll börn óháð fjölskyldugerð, og má þakka jafnaðarhugsjóninni fyrir þetta framfaraskref. Starf í leikskólum á Íslandi er á heimsmælikvarða en því miður hefur mönnunarvandi í leikskólum, rétt eins og í heilbrigðiskerfinu, verið sérstök áskorun. Lenging leikskólakennaranámsins á einn þátt í þessu en einnig lögin um eitt leyfisbréf sem menntamálaráðherra hafði frumkvæði að á síðasta kjörtímabili. Sú ákvörðun ein og sér leiddi til þess að yfir 300 kennarar fluttu sig frá leikskólanum og yfir í grunnskólana. Þessari áskorun hefur verið mætt með fagháskólanámi þar sem reynslumikið en ófaglært starfsfólk án stúdentsprófs á þess kost að sækja sér háskólamenntun. Þetta er gríðarlega mikilvægt átak til að fjölga faglærðu starfsfólki leikskólanna og frekari lausnir þurfa að koma til. Við fögnum því sem vel er gert. Í Reykjavík er markviss vinna við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla langt komin og hvet ég ríkisvaldið til að huga að enn frekari lengingu fæðingarorlofsins, eins og hæstv. ráðherra talaði um, í þágu geðheilbrigðis barna. Samvera með foreldrum er mikilvægasta forvarnastarfið í þágu barna en þá þurfa foreldrarnir að hafa efni á því að vera í lengra orlofi.

Að lokum, frú forseti, vil ég þakka öllu starfsfólki leikskóla fyrir umhyggjuna við mig, við börnin mín og núna við barnabörnin.