Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[17:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að umræðan um aukið samtal um öryggismál, varnarmál, var í raun og veru hafin á norrænum vettvangi áður en til innrásar Rússa kom og Finnar og Svíar ákváðu að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ég vil rifja það upp að á vettvangi Norðurlandaráðs hefur verið vaxandi umræða um þessi mál vegna þess, eins og hv. þingmaður nefnir, að þetta eru nánustu samstarfsríkin. Þau deila um margt gildum og samfélagsgerð og því er ekki nema eðlilegt að þessi mál séu til umræðu á þessum vettvangi. Eftir aðildarumsókn Finna og Svía má auðvitað segja að þetta samtal hafi orðið enn þéttara. Þetta eru stórmál og auðvitað lögðum við hin, Ísland, Noregur og Danmörk, á það sérstaka áherslu að standa með lýðræðislegri niðurstöðu Svía og Finna í þessum efnum enda teljum við að þetta muni styrkja, getum við sagt, norræna rödd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.