Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:01]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að við eigum nú í samstarfi við lögreglu í öðrum ríkjum þegar þannig háttar og ég held að það sé best að hafa það bara þannig í augnablikinu. En það er gott að við hv. þingmaður erum sammála og ég ítreka að orð mín voru alls ekki til höfuðs honum. Ég talaði um að við mættum ekki þrengja of mikið umræðuna um öryggis- og varnarmál og var í raun bara að taka undir þá áherslu sem birtist í tillögu um þjóðaröryggisráð um taka víðari hagsmuni inn í myndina en þrengri. Mér finnst það koma ágætlega fram hérna í textanum, með leyfi forseta:

„Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“

Ég er algjörlega sammála þessu. En ég er hins vegar algjörlega meðvitaður um það að á sama hátt og við eigum að sækja fram í alþjóðastarfi og í samvinnu við nágrannaþjóðir okkar, og líkt þenkjandi þjóðir, bera út boðskap friðar, lýðræðis og mannréttinda, þá þurfum við líka að kunna að takast á við ófrið þegar sú ógn steðjar að okkur eins og nú er að gerast í Evrópu. Það er alveg jafn mikilvægt að við höldum þeim hluta þjóðaröryggisstefnunnar inni sem byggir annars vegar á veru okkar í Atlantshafsbandalaginu og hins vegar á tvíhliða samningi við Bandaríkin.