Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:16]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisinnlegg, hann hefur iðulega komið inn í góðar umræður með ágætum hætti. Það var kannski ekki um beina spurningu að ræða hjá hv. þingmanni en ég vil koma aðeins inn á það sem hann nefnir hér varðandi netöryggið og sæstrengina og ljósleiðarana — þetta eru náttúrlega allt gríðarlega mikilvæg fjarskiptatæki sem skipta okkur verulegu máli. Ég átti gott samtal við sérfræðinga í Bandaríkjunum fyrir ekki svo löngu, í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, um þessi mál. Þar var mér m.a. sagt að ef menn væru áhugasamir um að fara að klippa hér á strengi, og þá er náttúrlega verið að horfa sérstaklega til Rússa, værum við væntanlega ekki á forgangslista hvað það varðar. Það væru þá lönd eins og Írland og Holland, sem gríðarleg netumferð er í gegnum, sem væru kannski meiri skotmörk, ef það má orða það þannig. Engu að síður verðum við að vera á varðbergi hvað þetta varðar. Eins og ég nefndi í andsvari fyrr í dag þá líta Bandaríkjamenn svo á að þó að hættan geti vissulega raungerst sé hún ekki alvarleg hvað okkur varðar en þetta sé þó stöðugt í mati. Ég spurði þann sem ég ræddi við sérstaklega að því hvort þeir væru með einhverja viðbragðsáætlun hvað okkur varðar og vildi hann meina að svo væri og að fram færi stöðugt hættumat sem er náttúrlega upplýst og gert í samstarfi við íslensk stjórnvöld. Ég held því að þessir hlutir séu vel vaktaðir hjá okkur en auðvitað má alltaf gera betur og t.d. fylgjast með þeirri kafbátaumferð sem hér er við landið. Mér skilst þó að hún sé ekki mikil hér nálægt landi, hún sé meiri norður frá. (Forseti hringir.) Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum en ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisinnlegg.