Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég hef nú ekki lesið þetta frá Birni Bjarnasyni en hann hefur lagt mjög margt gott til málanna þegar kemur að öryggis- og varnarmálum Íslands og er fróður í þeim efnum. Að stíga fastar til jarðar — frá mínu sjónarhorni finnst mér afar mikilvægt að við eigum þetta góða samstarf við Bandaríkin. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt nefnt það í ræðu sinni að við myndum dýpka það samband og mér finnst það bara vel að orði komist. Auðvitað þurfa þessir hlutir að vera í stöðugri endurskoðun vegna þess að við erum að horfa fram á breyttar ógnir. Ég held að það sé lykillinn að því að styrkja þær stoðir sem við höfum nú þegar, þ.e. varnarsamninginn við Bandaríkin, veru okkar í NATO.

Ég vil alveg taka undir það með hv. þingmanni að að mörgu leyti væri rétt að segja að NATO sé einnig friðarbandalag. Það er varnarbandalag í mínum huga en það má alveg segja að það sé friðarbandalag vegna þess að það er þessi fælingarmáttur sem við þekkjum. Það er ekki að ástæðulausu að land eins og Finnland, sem hefur alltaf reynt að sýna ákveðið hlutleysi, skuli núna vera umsóknarríki um aðild að NATO, en í því felst fælingarmáttur gagnvart Rússlandi, að NATO komi þá inn til varnar ef Rússar ætla að færa sig upp á skaftið gagnvart Finnum. Svo er Svíþjóð auk þess umsóknarríki þannig að við erum að sjá gríðarlegar breytingar. En ég veit ekki hvað Björn Bjarnason, sá ágæti maður og fyrrum ráðherra, átti nákvæmlega við með þessu enda hef hef ég ekki lesið það sem hann skrifaði um þetta. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem þarf stöðugt að vera í endurskoðun að mínu mati og í samtali við okkar mikilvægu bandamenn.