Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:50]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér breytingar á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Stefnan var sett árið 2016 og nú ræðum við endurskoðun. Það sem hefur kannski haft mest áhrif á mikilvægi þess að hún sé endurskoðuð með þeim hætti sem hér er verið að vinna er óveðrið í desember 2019 og mikið tekið á því raunverulega í tillögunni sem hér er lögð fram um breytingu á stefnunni. Svo er það sem hófst í byrjun árs, Úkraínustríðið, innrás Rússa í Úkraínu. Þetta eru kannski þeir helstu þættir sem eru mjög mótandi um það sem við erum að fást við hér.

Mér finnst mjög vel orðað margt í þessari tillögu og greinargerðin góð, mér finnst t.d. mjög gott það sem segir í a-lið tillögunnar:

„1. mgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins.“

Þessar tvær línur segja býsna margt og stefnan snýst raunverulega að miklu leyti um þessar tvær línur.

Ég kem kannski inn á nokkra þætti sem mér finnst að mætti skoða og reyndar mætti — og það kom kannski fram í andsvari við hæstv. forsætisráðherra áðan — kannski fara dýpra í að útskýra aðeins raforkukerfið og mikilvægi þess. Við ætlum okkur að fara í orkuskipti og raunverulega treysta á græna raforku þannig að hún verður sífellt mikilvægari og raunverulega munum við treysta miklu meira en við gerum í dag á öflugt raforkukerfi, þar með flutningskerfi raforku, meginflutningskerfið. Það hefur sýnt sig og hefur reynst okkur vel núna síðustu vikur og mánuði og bara þetta haustið, í tveimur óveðrum fyrir norðan, hvað Kröflulína 3, nýja línan, og Hólasandslína 3 hafa staðið sig vel þar sem gömlu línurnar, gamli byggðalínuhringurinn, voru að bregðast okkur á því svæði. Þetta er svolítið það sem koma skal og við ætlum okkur að treysta á þetta þannig að það er gríðarlega mikilvægt að þessi uppbygging komi upp sem allra fyrst til að tryggja þetta orkuöryggi enn frekar. Það er einn punktur sem maður hefði gjarnan viljað kannski sjá minnst á með aðeins öflugri hætti í þessu.

Við höfum náð miklum árangri í dreifikerfinu. Árin 1991 og 1995 voru mjög slæm óveður á Íslandi og þá lagðist stór hluti af dreifikerfi landsins niður. Í framhaldi af því var farið í mikið átak að byggja upp dreifikerfið með því að leggja lágspennta kerfið í jörðu. Nú er svo komið að það er komið að yfir 70% í jörð en meginflutningskerfið verður seint allt lagt í jörðu og þess vegna þarf að efla það og styrkja sem allra mest og fyrst. Fyrir mér væri það lykilatriði að klára meginflutningskerfi raforku alveg frá Reykjanestá og austur í Fljótsdalsstöð. Það væri svona fyrsta verk sem við ættum að fara í hratt og vel.

Það er líka mikið rætt um fjarskipti og verið mikið rætt hér í dag um fjarskiptakerfin, t.d. sæstrengina, fjarskiptastrengina, og þetta er náttúrlega lykilatriði í öllum fjarskiptum landsins. Hér hefur líka verið minnst á gervihnattatengingar. Þá held ég að talan sé þannig að við gætum raunverulega sinnt um 2–5% af gagnamagni sem fer um fjarskiptastrengina með því gervihnattasambandi sem við höfum í dag. Þannig að það er ljóst að ef við missum fjarskiptastrengina í sjó þá missum við ansi mikið. Þá þarf að efla og ég hef grun um að það sé verið að huga mjög að því í tengslum við Nordstream, sprengingarnar á gaspípunum þar, í Eystrasaltinu, að það sé mikil vinna farin af stað í að tryggja ýmsa innviði í sjó. Þetta haustið höfum við séð slitna strengi milli Svalbarða og Noregs, við Hjaltlandseyjar og sunnan við Frakkland á undanförnum vikum og ekki komnar fullnægjandi skýringar á öllum þessum tilvikum. Þetta er raunverulega lykilatriði úti um allan heim, þessir fjarskiptastrengir.

Maður getur kannski bara tekið nokkra punkta fyrir í stuttri ræðu en mig langaði að nefna leit og björgun í Atlantshafinu. Það er komið inn á hafsvæðið í kringum landið. Það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra áðan að kannski væri meira talað um fjarskiptastrengina en ég vil einmitt líka ræða skyldur okkar Íslendinga við leit og björgun í Norður-Atlantshafinu á svæði sem er 19 sinnum stærra en Ísland, bara á hafsvæðunum í kringum okkur sem Landhelgisgæslan raunverulega ber ábyrgð á að sinna og stýra. Ég held við þurfum að efla þann kost og þyrlukost til þess að geta sinnt þeim málum og ég held við ættum að skoða það samstarf og að það væri eðlilegt að við myndum skoða það í samvinnu við Atlantshafsbandalagið, kannski sérstaklega Bandaríkjamenn sem eru í þinginu hjá sér að ræða mikið norðurslóðamálin og þar með öryggis- og varnarmál á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi, síðan kannski jafnvel enn frekar það sem Danir eru að skoða núna með aukinni fjárfestingu til sinna öryggis- og varnarmála, sem þeir hafa sagt upp á 1,5 milljarða danskra króna og þeir hafa sagt að það eigi fyrst og fremst að fara í varnar- og öryggismál í Norður-Atlantshafi, í kringum Færeyjar og Grænland, hvort það sé einhver vettvangur þar sem hægt er að vinna með varðandi þyrlurnar, hvort væri hægt að efla og vera með samstarf um þetta og gera þetta heilsteypt yfir allt þetta með öflugum hætti.

Ég vil rétt koma inn á, vegna þess að hv. þm. Jakob Frímann Magnússon kom inn á hugveitu áðan, á ensku „think tank“, frú forseti, að þingsályktunartillaga sem liggur hér fyrir í þinginu um rannsóknarsetur um öryggis- og varnarmál er einmitt til að koma til móts við þessar þarfir, að efla umræðu á Íslandi um öryggis- og varnarmál og fellur algerlega undir það sem við erum að ræða hér í dag, að það þarf svo sannarlega að efla og það er mikilvægt að efla þessa umræðu og þekkingu um öryggis- og varnarmál sem eru auðvitað risastór hluti af þjóðaröryggismálum þjóðarinnar. Auðvitað er það þannig varðandi að öflugum vörnum og öryggi sé sinnt með öflugum hætti að lokamarkmiðið hér er að tryggja frið. Um það snýst málið allt þegar við ræðum öryggis- og varnarmál.

Það hefur verið komið víða við og einn punkturinn varðandi matvælaöryggi er áburðarframleiðsla, fosfórinn, íblöndunarefni í áburð og ég held að væri mjög spennandi að tengja þetta við rafeldsneytisframleiðsluna, þar sem er verið að framleiða vetni. Þetta er hliðarafurð og gæti verið hluti af þessu hringrásarkerfi í tengslum við rafeldsneyti. Það er eitthvað sem við eigum að taka alvarlega og skoða vel.

Ég vil líka koma inn á hér, ég hef nú ekki tíma til að ræða Evrópusambandið, Ísland og öryggi og varnir, hef gert það áður, búinn að ræða aðeins hérna um leit og björgun, en það er gervihnattaleiðsagan. Síðan ég kom inn á þing 2016 hef ég mikið rætt um EGNOS-gervihnattaleiðsöguna sem er þá hluti líka af því að efla leiðsögu fyrir flugvélar og skip og almenna leiðsögu bara á okkar heimssvæði og hérna á Íslandi og ég held að það gæti gert gríðarlega mikið ef við fengjum — við urðum aðilar að þessu í október 2021 og það væri gríðarlega stórt og mikilvægt, og mér finnst það ætti að skoða það í þessu samhengi hlutanna, vegna þess að það er hluti af öryggismálum þjóðarinnar, hvort væri hægt að flýta því eða raunverulega ná því fram, vegna þess að það hefur gríðarlega mikið að segja eins og á Íslandi og Grænlandi og hérna á Norður-Atlantshafi varðandi allt flug. Það er eitthvað sem þyrfti klárlega að fara betur í.

En þetta er, eins og ég segi, þannig mál að það klárast ekki á tíu mínútum að ræða það heldur vildi ég bara að koma með þessa áherslupunkta. Við höfum tekið svolitla umræðu um þetta í haust í nokkrum hlutum. Síðan vildi ég reyndar nefna neyðarbirgðir. Það þarf að fara miklu betur í ákveðna hluti þar, m.a. um flugvélaeldsneyti, hvernig því er dreift í landinu og hvar það er geymt, vegna þess að það er lykilþáttur í öryggi landsins.