Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[21:03]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra bendir einmitt á viðbragðsáætlunina. Ef ég man rétt þá var fyrsta viðbragðsáætlunin gegn sóttvörnum gerð í kringum 2008 eða 2009, u.þ.b. þegar svínaflensan var að berast hingað. Það hjálpaði okkur svo sannarlega mjög mikið að við vorum búin að taka fullt af ákvörðunum um hvernig við ætluðum að gera hlutina og ýmislegt annað, sem einfaldaði viðbragðið þegar eitthvað gerðist. Þess vegna er mjög mikilvægt að við hlustum á Víði, ekki bara þegar kemur að sóttvörnum heldur líka þegar hann segir að við þurfum að fjárfesta í viðbragðsáætlunum, fleiri viðbragðsáætlunum, og líka að uppfæra þær sem við höfum. Margar þeirra eru orðnar úreltar af því að hér eru þúsundir, tugir ef ekki hundruð þúsunda, ferðamanna á hverjum tíma. Það var kannski ekki raunin í gömlu viðbragðsáætluninni.