153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:29]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir þessa mikilvægu umræðu hér í dag. Það er vandlifað að vera í ríkisstjórn þegar fjársvelti er gagnrýnt en svo er það líka gagnrýnt þegar peningum er varið í málaflokkana, það er dálítið erfitt að mæta því. Ég ætla að byrja á því að minnast á að árið 2019 setti þáverandi heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, af stað geðteymi sem tók til starfa árið 2020 og ég vil hrósa því mikilvæga verki. Það er enginn að segja að staðan sé góð. Það þarf að gera miklu betur. Það þarf að tryggja fjármagn.

Ég ætla að nota þessa stuttu stund sem ég hef hér til þess að varpa ljósi á það sem ég tel vera eina stærstu ástæðu þeirrar stöðu sem við erum í og það er stefnuleysi okkar til áratuga varðandi fólk í vímuefnavanda. Við erum ekki nógu fagleg, við erum ekki með nógu fjölbreytt úrræði, við grípum fólk ekki nógu snemma. Stór hluti ástæðunnar fyrir stöðunni í fangelsismálum á Íslandi er nákvæmlega þetta. Það sem ég vil leggja sérstaklega áherslu á, og hef gert það í fjölmörg skipti í þessari pontu sem og í öðrum ræðum og í riti, er að við verðum að fá þá heildarúttekt sem farið var af stað með til að skoða stöðu fólk með fíknivanda. Úrræðin þurfa að vera sterkari, þau þurfa að mæta ólíkum þörfum. Ég kem kannski betur inn á það í seinni ræðu minni, en þetta er eitthvað sem við getum ekki horft fram hjá þegar við ræðum hér stöðuna í íslenskum fangelsum.