153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[14:46]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Hér ræðum við stöðuna í fangelsismálum sem ég held að sé ótrúlega mikilvægt. Í seinni ræðu minni langaði mig að koma inn á annað sem hefur borið á góma í dag en það er sú skelfilega staða fólks sem þarf að bíða frá því að dómur fellur þar til afplánun hefst. Þetta sjáum við aftur og aftur. Við sjáum unga einstaklinga hljóta dóm sem þurfa að bíða lengi. Það verður jafnvel til þess að þegar tíminn líður er fólk búið að snúa við blaðinu, komið í nám og búið að stofna fjölskyldu — þá á að kippa því út úr lífinu til að klára dóm þegar það hentar ríkinu, burt séð frá stöðu viðkomandi. Þetta er auðvitað algerlega óþolandi staða.

Mig langar einnig að nefna mál sem hér hefur oft og iðulega verið rætt, þ.e. sú refsistefna sem við erum að ástunda gagnvart veiku fólki, ungum fíklum. Ég hef svo sem ekki verið talsmaður þess frumvarps sem hér hefur margoft komið fram um afglæpavæðingu. Mér finnst margt vanta upp á þar, en ég er svo sannarlega sammála hugmyndafræðinni sem liggur að baki. Við erum ekki að gera neinum gott og gerum ekki neitt að gagni með því að taka okkar veikustu einstaklinga, langoftast kornungt fólk sem er veikt af fíknisjúkdómum, og refsa þeim. Það er ekki rétta leiðin og eykur bara á álagið í þessum málaflokki.