153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

Fangelsismál.

[15:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Forseti. Við hljótum að gera alvarlegar athugasemdir við það hvernig hæstv. dómsmálaráðherra kláraði umræðuna hér, ágætisumræðu um fangelsismál. Hann gerði það með því að leggja þingmönnum orð í munn, hægri, vinstri, út og suður í öllu niðurlagi ræðu sinnar. Hvar sagði ég í minni ræðu eða gaf það í skyn að ég vildi setjast niður og semja við skipulagða glæpahópa? Menn sem svona tala, menn sem túlka orð á þennan hátt sem skrifuð eru niður og hægt að lesa yfir eru auðvitað bara að slá ryki í augu almennings, þeir halda áfram með þá retórík að eitthvert stríð hljóti að vera svarið þegar við erum að benda á að aðrar leiðir og önnur hugtakanotkun gætu verið skilvirkari. Það að fara í stríð þegar þú ert með fjársvelta lögreglu, fjársvelta dómstóla og fjársvelt fangelsi er bara ekki trúverðugt. Hvað haldið þið að þeir geri sem taka á móti stríðsyfirlýsingu? Þeir bregðast auðvitað við á sinn hátt. Hæstv. dómsmálaráðherra kemst ekki undan þessum orðum og ég frábið mér að hann komi upp og leggi mér orð í munn og leggi einhvern allt annan skilning í það sem ég sagði en kom fram úr mínum munni. Ég frábið mér svona málflutning.