153. löggjafarþing — 39. fundur,  29. nóv. 2022.

veiðigjald.

490. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta eru búnir að vera svoddan ræðusnillingar sem hafa komið hérna á undan mér að ég hef litlu við það að bæta, en ég mæli fyrir nefndaráliti 3. minni hluta um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjald, nr. 145/2018. Frumvarp þetta felur ekki í sér neina hækkun á veiðigjaldinu, bara ekki neina, þjóðinni til hagsbóta. Með frumvarpinu er lagt til að dreifa áhrifum svokallaðrar flýtifyrningar milli ára. Um er að ræða fegrunaraðgerð til að fletja út tekjukúrfuna. Það voru klárlega mistök að heimila 50% fyrningu af fjárfestingu í skipum í miðjum Covid-faraldrinum. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Það skyldi engum detta í hug að útgerðirnar hafi allt í einu ákveðið að smíða ný skip í kjölfar lagabreytingarinnar. Slíkar framkvæmdir krefjast mun lengri aðdraganda en svo. Flýtifyrningin var í raun sérhannað úrræði fyrir stórútgerðirnar sem höfðu þegar ákveðið að ráðast í þessar fjárfestingar.

Fjölmiðlar tala um frumvarpið sem hækkun veiðigjalds en raunin er önnur. Ríkisstjórnin er búin að átta sig á því hvað þessi flýtifyrning hafði mikil áhrif á veiðigjaldið og hefur því ákveðið að fegra tölurnar og fletja út kúrfuna, eins og þeir kalla það. Keyra þarf frumvarpið í gegnum þingið á methraða eins og gengur. Erum við kannski að fá eitthvað annað óvandað í fangið, hver veit? Hér hefur komið fram að alltaf geti átt sér stað mistök og enginn hafi getað séð þau fyrir, eins og greinilega virðast hafa orðið í þeim lögum sem er verið að reyna að laga til með þessu frumvarpi. Staðreyndin er sú að ég hef ekki einu sinni tölu á þeim lögfræðingum og sérfræðingum sem eru hér til aðstoðar og faglegrar hjálpar fyrir ráðherra jafnt sem þingmenn þegar við erum að leggja fram frumvörp og þingsályktunartillögur. Það á að setja þetta í gegnum þingið á methraða þannig að tryggja megi tekjur á næsta ári upp á 2,5 milljarða kr. En það má ekki gleyma því að þá lækka tekjurnar í hlutfalli við það á árunum á eftir vegna þess að þetta á að fletja yfir fimm ára tímabil. Þessi fegrunaraðgerð er til þess að almenningur rísi ekki upp á afturlappirnar og mótmæli því hvað veiðigjöldin eru skammarlega lág, sem þau eru. Það er óumdeilt að veiðigjaldið dugir vart til reksturs þeirra stofnana og rannsókna sem ætlað er að halda utan um sjávarauðlindina. Þar má nefna Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæsluna.

Þjóðin á sjávarauðlindina. Það má náttúrlega setja það innan gæsalappa vegna þess að svo einkennilegt sem það er þá virðist í raun og veru vera nóg að fá úthlutað ákveðnum aflaheimildum, kaupa sér svona eins og tíu tonn af þorski og ég held að maður geti bara haldið áfram að veiða þessi tíu tonn á hverju einasta fiskveiðistjórnarári svo lengi sem augað eygir. Það er athyglinnar virði að sjá hvað eitt tonn er orðið í rauninni að mörgum tugum tonna þegar upp er staðið í lok dags. Þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem við erum með hér og nú, sem átti að vera eitt það besta og flottasta í heimi, hefur í rauninni gefið ákveðnum aðilum stórútgerðarinnar tækifæri á því að safna auð með augun rauð á meðan hina brauðið vantar.

Þjóðin á sjávarauðlindina og hún á skilyrðislaust að fá fullt endurgjald fyrir afnot af henni, eins og við höfum talað um í Flokki fólksins, markaðsverð fyrir afnot af henni. Frumvarpið tekur af allan vafa um það að áfram fær stórútgerðin að arðræna þjóðina.

Það er vert að velta því fyrir sér, virðulegi forseti, hvort það sé raunverulegur vilji til þess að hækka veiðigjöldin, hvort það sé raunverulegur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að okkar sameiginlegi ríkissjóður eigi einhvern aðgang af rentum auðlindarinnar þegar búið er að greiða fyrir þær nauðsynjar sem talið er að við þurfum að hafa í kringum auðlindina. Það er náttúrlega búinn að vera mikill urgur og ósætti vegna þess að eðli málsins samkvæmt hlýtur þetta að líta furðulega út þegar við vitum að einstaka aðilar eru orðnir svo moldríkir að þeir vita ekki aura sinna tal. Það mega allir verða svo moldríkir að þeir þekki ekki aura sinna tal mín vegna, en það á ekki að vera á kostnað þjóðarinnar, engan veginn. Sjávarútvegsfyrirtækin sum, þau stærstu, eru ekki einu sinni lengur að hugsa um að vinna einungis í sjávarútvegi. Þau vita í rauninni ekkert hvað þau eiga að gera við peningana sem þau eru búin að moka upp fyrir sjávarauðlindina til þess að fjárfesta þannig að þau eru komin í rekstur í allar áttir; tryggingafélög, verslanir, heildsölur, fasteignafélög, nefnið það bara.

Það er algjört grundvallaratriði að við förum að fá sanngjarnt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar. Það er líka grundvallaratriði þegar við sjáum að hér sé verið að færa til fjármuni á milli ára núna til þess að reyna að ná í þessa 2,5 milljarða inn í ríkissjóð á næsta ári — og ég endurtek að þetta er ekki hækkun veiðigjalda heldur tilfærsla á milli ára — og ástæða til að benda á það að á sama tíma er búið að lækka bankaskatt um milljarða og aftur milljarða króna. Hvers vegna í ósköpunum sækjum við ekki meira fjármagn þangað sem það er fyrir, þar sem allar hirslur eru að springa af peningum? Hvers vegna í ósköpunum förum við ekki að forgangsraða fjármunum fyrir fólkið fyrst? Hverjum í ósköpunum dettur það í hug að það sé eitthvað eðlilegt við það að lækka bankaskatt þegar hagnaður bankanna skiptir tugum milljarða á ári? Ég held, ég man ekki alveg hvort það var frá því hreinlega 2018, að þeir séu búnir að hagnast um á þriðja hundrað milljarða kr. Þá lækka þeir bankaskattinn og kvarta um að það vanti fjármuni í ríkissjóð. Við erum búin að takast á við heimsfaraldur, höfum þurft að skuldsetja okkur upp í rjáfur til að reyna að fá fram þá viðspyrnu í atvinnulífinu sem við öll þráðum eftir að við losnuðum út úr þessum faraldri.

Ég er sorgmæddust yfir því að svona flýtimeðferð skuli vera möguleg þegar á að fletja út kúrfuna og setja sjálfan sig í einhverja andlitslyftingu eins og hér er verið að gera á sama tíma og við höfum auðfús tekið á móti því að láta stórútgerðina ekki greiða meira fyrir aðgang að auðlindinni en raun ber vitni, sanngjarnara og eðlilegra verð fyrir auðlindina okkar.