153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Mér þykir rétt að fara aðeins yfir uppruna eingreiðslunnar sem öll nefndin stendur á bak við. Fyrir nokkrum árum síðan voru lagðir til 4 milljarðar í kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu vegna örorkukerfisins og hluti af því fjármagni var settur í að minnka krónu á móti krónu skerðingu. Það var ákveðinn afgangur eftir þá breytingu sem ekki fannst staður fyrir í kerfinu og því var gripið til þess ráðs í lok ársins, í staðinn fyrir að afgangurinn af þessum 4 milljörðum í rauninni hyrfi, að greiða afganginn út sem eingreiðslu. Síðan þá hefur í raun ekkert breyst hvað þessa 4 milljarða varðar og á hverju ári eftir þetta hefur afganginum af þessum 4 milljörðum verið ráðstafað á þennan hátt, í eingreiðslu. Núna er ég ekki alveg viss um hversu mikill afgangurinn er eða hvort hann dekkar í rauninni þessa upphæð núna. Ef hv. þingmaður gæti aðeins farið yfir það væri það vel þegið.