153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[18:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel það vera rétt að taka á þessu á þessu stigi fyrst það var ekki búið að því. Hv. þingmaður er eitthvað viðkvæmur fyrir því að fleira gæti hafa farið úrskeiðis í þessu heldur en bara þetta mál. Mig langar að nefna eitt af þeim málum sem talað er um hér og það er lyfjakostnaður sem er að fara 4 milljarða fram úr. Ég sat sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd á síðasta ári og þá var einmitt verið að ræða þetta, að lyfjakostnaður væri vanáætlaður. Ég held að búið sé að gera grein fyrir því núna að það er ekkert svigrúm fyrir aukinn lyfjakostnað á næsta ári. Það hefur verið bent á að það er verið að prófa ný lyf og það er ekki gert ráð fyrir neinum fjármunum í það. Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á því að ekki er hægt að áætla þetta þannig að við séum ekki alltaf að fá milljarða bakreikninga? Þetta eru ekki neinar smáupphæðir. Við erum að tala um 4.000 milljónir.