153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[20:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Loftslagsvá og stríð gera það að verkum að hundruð milljóna manna í heiminum þurfa á neyðaraðstoð að halda. Á þessum tíma, akkúrat núna, stendur Rauði krossinn á Íslandi fyrir söfnun vegna hungursneyðar sjö milljóna manna í Afríku. Þegar við ræddum um miðjan september fjárlög fyrir næsta ár þá spurði ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort ófyrirséð útgjöld vegna Úkraínu myndu hafa áhrif á útgjöld þessa árs til annarra mannúðar- og þróunarstarfa. Svar hæstv. ráðherra, með leyfi forseta var þetta:

„Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst alveg ótvírætt að Alþingi geti með fjáraukalagaheimild bætt í stuðninginn á árinu 2022. Það er augljóst öllum að það var ófyrirséð þegar fjárlög þessa árs voru sett saman að það myndi reyna á slíka alþjóðlega aðstoð. Mér finnst ég einfaldlega skynja hér á þinginu mjög mikinn og eindreginn þverpólitískan stuðning við að senda skýr skilaboð, m.a. með fjárframlögum en ekki bara með yfirlýsingum, að þeim sé fylgt eftir með virkum hætti.“

Það olli mér því mikilli sorg að lesa síðasta kaflann í frumvarpi til fjáraukalaga þar sem fjallað er um fjárframlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Gerð er tillaga um 400 millj. kr. framlag í mannúðar- og efnahagsaðstoð til Úkraínu sem væri til viðbótar við þær 1.030 millj. kr. sem Ísland hefur nú þegar skuldbundið til mannúðar- og efnahagsaðstoðar til Úkraínu. Sérstaklega er horft til efnahagsaðstoðar í gegnum Alþjóðabankann, í samræmi við óskir úkraínskra stjórnvalda.“

Þessi kafli endar á textanum:

„Mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu hefur verið fjármagnaður af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna.“

Þetta fer þvert á það sem ráðherra lýsti yfir í umræðum um fjárlög. Því hef ég lagt fram breytingartillögu, sem finna má á þskj. 656, þar sem ég legg til að framlög úr ríkissjóði til þróunarsamvinnu hækki um 783 millj. kr. umfram þær 400 milljónir sem þegar hefur verið bætt við í fjáraukalagafrumvarpinu þannig að hægt sé að halda áfram stuðningi Íslands við önnur brýn alþjóðleg verkefni. Þetta eru verkefni sem mikið er verið að reyna að finna fjármagn í núna. Við í utanríkismálanefnd fengum t.d. mjög nýlega í heimsókn yfirmann Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem brýndi okkur til þess að taka meiri þátt því að þörfin hefði aldrei verið meiri en akkúrat núna. Það er von mín að meiri hluti hv. fjárlaganefndar skoði þessa breytingartillögu með jákvæðum hætti. Þó svo að hún verði kannski felld í atkvæðagreiðslu á eftir þá treysti ég þeim til að hugsa alla vega um hana milli 2. og 3. umr.

Það er líka mikilvægt að við hugsum um þá sem eru hér heima og búa við slæmar aðstæður vegna hækkunar á greiðslum, hækkunar á vöxtum og öðrum hlutum. Ég vil því taka undir það sem hér hefur verið nefnt áður, að við horfum líka til þess að hækka greiðslur til eldra fólks og að við styðjum hjálparsamtök, sem hjálpa þeim sem minnst mega sín, með sérstöku framlagi nú á aðventunni. Ég ætla ekki að lengja þetta mikið meira. Það er von mín að þeir fulltrúar sem hér eru inni taki þessu með opnu hjarta og taki fleiri góðar ákvarðanir eins og við tókum um hækkun eingreiðslu til öryrkja. Þar sýnduð þið öll að þið eruð með stórt hjarta. Ég veit að það er enn þá stærra.