153. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[21:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil segja örfá orð um áhrif verðbólgunnar á fjáraukalögin og reyndar á það sama í raun og veru við fjárlög næsta árs. Samkvæmt þeim reikningsskilastöðlum sem við erum að gera upp á, þá sýnum við mjög mikið gagnsæi, meira gagnsæi heldur en flestar aðrar þjóðir. Við erum með hluta af skuldum ríkisins verðtryggðar og þess vegna kemur gjaldfærsla núna vegna þess að verðbólgan hefur vaxið á árinu umfram það sem gert var ráð fyrir og verðbótaþáttur skuldanna hækkar. Hins vegar er það þannig að meiri hluti skulda ríkisins eru óverðtryggðar skuldir og þar með er ríkið í verðbólgunni með neikvæða raunvexti. Sá sem á þessar kröfur á ríkið er að tapa. Við erum hins vegar ekki að tekjufæra það tap okkar megin enda ekki ráð fyrir því gert samkvæmt reikningsskilastöðlum en í heildina eru skuldirnar að þróast á góðan veg fyrir ríkið sem kemur síðan á endanum fram í skuldastöðunni og skuldahlutföllunum. Það verður að benda á þetta, að þrátt fyrir þessa gjaldfærslu eru skuldahlutföllin miklu betri heldur en við gerðum ráð fyrir fyrir stuttu.