153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staða fátæks fólks.

[15:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það var hér í þessum æðsta ræðustóli landsins sem hæstv. forsætisráðherra sagði, í september 2017, að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu væri það sama og að neita því um réttlæti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra setið við stýrið á stjórnarskútunni í fimm ár og enn er fátækt fólk að bíða eftir réttlætinu. Í atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin í síðustu viku lagði ég fyrir breytingartillögu og óskaði eftir því að sýnd yrði gæska og mannúð gagnvart gömlu fólki sem hefur ekki í nein önnur hús að venda og á engar fleiri krónur umfram þær berstrípuðu frá almannatryggingum. Það var nafnakall hér í þessum ágæta sal og svarið var nei.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra. Í fyrsta lagi: Var auðvelt að segja nei í þessari atkvæðagreiðslu? Í öðru lagi: Hversu lengi telur hæstv. forsætisráðherra að sé eðlilegt að fátækt fólk bíði eftir réttlætinu? Verður það kannski ekki fyrr en á bls. 150 sem það má eiga von á því að fá að taka þátt í samfélaginu á meðal okkar allra og fá að vera með okkur í því góðæri og því frábæra ríkidæmi sem sífellt er verið að státa af hér? Ég óska einungis eftir svörum við þessu frá hæstv. forsætisráðherra, enda glöð að hún skyldi vera búin að telja upp gæskuna sem þau hafa verið að sýna nú í sumar.

Ég er ekki að spyrja um þessi rúmu 3% sem var verið að hækka almannatryggingarnar um í sumar, þau eru löngu brunnin upp á verðbólgubáli og í brjáluðum vöxtum. Ég er ekki að tala um hækkaðar barnabætur eða húsnæðisbætur. Ég er að tala nákvæmlega um þetta tvennt: Hve lengi finnst hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að fátækt fólk sé látið bíða eftir réttlætinu? Var það ekki réttlæti að mismuna ekki gömlu fólki þegar við (Forseti hringir.) vorum að greiða atkvæði um desemberuppbót í síðustu viku?