153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staða fátæks fólks.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og alveg eins og ég segi ekki hv. þingmanni um hvað hún á að spyrja þá ætla ég að leyfa mér að svara þessari spurningu eins og ég kýs að svara henni, hv. þingmaður. Hv. þingmaður kemur hér upp og lætur eins og ekkert hafi verið gert í málefnum örorkulífeyrisþega og aldraðra á síðasta kjörtímabili og núna. Hún veit ósköp vel að þetta er ekki rétt. Hún veit ósköp vel að dregið var úr skerðingum gagnvart öryrkjum á síðasta kjörtímabili í tveimur þrepum, samtals fyrir 4 milljarða kr., til þess að bæta sérstaklega stöðu hinna tekjulægstu í hópi öryrkja. Hún veit ósköp vel, alveg eins og ég, að hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt á það áherslu og meðal tillagna ríkisstjórnarinnar nú fyrir 2. umr. fjárlaga er að leggja til hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna, löngu tímabæra hækkun sem snýst um að hvetja þennan hóp til atvinnuþátttöku sé það mögulegt. Það þarf ekki að bíða lengur eftir því. Hv. þingmaður ræðir hér verst setta hópinn í hópi aldraðra. Það var að frumkvæði þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, og mín, forsætisráðherra þá, að ráðist var í sérstakar úrbætur með félagslegum viðbótarstuðningi fyrir þennan tekjulægsta hóp. Það var gert á síðasta kjörtímabili. Og af því að hv. þingmaður vill ekki að ég ræði hér húsnæðisstuðning eða barnabætur þá vill svo til, herra forseti, að nákvæmlega þessar aðgerðir gagnast öllum tekjulágum sem annars vegar þurfa að búa einhvers staðar, sem á nú líklega við um flesta, og ekki síður auðvitað ungu barnafólki sem við sjáum mætavel af okkar gögnum að á margt hvert erfitt með að ná endum saman. Þetta er svarið, hv. þingmaður, hvað sem þingmanninum finnst um það.