153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staða fátæks fólks.

[15:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, ég hlýt náttúrlega að gera það kurteisinnar vegna, en hún svaraði engu, akkúrat engu. Ég mátti ekki nefna það sem ég nennti ekki að hlusta á þar sem ég hefði heyrt það í fyrirspurninni á undan, hún sagði mér hvað mér hlyti að finnast rétt og hvað ég hlyti að skilja. Hér kemur hæstv. forsætisráðherra og talar um 4 milljarða sem hafi verið lagðir í það að styðja við örorkulífeyrisþega. Veit hæstv. forsætisráðherra að 2,9 milljarðar af því voru teknir beinustu leið í að greiða upp lögbrot ríkisstjórnarinnar hvað varðar búsetuskerðingar? Veit hún það? Veit hæstv. forsætisráðherra að á þessu tímabili er búið að lækka bankaskattinn um 6 milljarða kr.? Finnst hæstv. forsætisráðherra það eðlileg forgangsröðun fjármuna í þessu samfélagi gagnvart þeim sem eiga erfiðast og búa við bágustu kjörin? Það er í engu einasta samræmi, virðulegi forseti, við nokkurn skapaðan hlut, t.d. í þessu tilviki, að hælast yfir þessum 4 milljörðum þegar 1.100 milljónir af því fóru til að laga þessa krónu á móti 65 aura skerðingu sem gagnast eingöngu þeim öryrkjum sem geta unnið.