153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

fjárframlög til Sjúkratrygginga Íslands.

[15:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið fengum við þær fréttir í morgun að María Heimisdóttir hefði sagt upp starfi sínu sem forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Stundin greinir frá því að ástæðan sé sú að María telji sig ekki geta borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga þar sem stofnunin sé vanfjármögnuð. Í bréfi sem hún sendir til starfsmanna sinna í morgun segir hún að fjárveitingar til stofnunarinnar hafi lækkað síðan 2018 ef reiknað er á föstu verðlagi. Í bréfinu segir María um Sjúkratryggingar Íslands, með leyfi forseta:

„Það hefur hins vegar ekki tekist að styrkja rekstrargrundvöll hennar til að ná ásættanlegum árangri — að við getum rækt lögboðnar skyldur okkar með sóma og boðið samkeppnishæf laun. Við þessar aðstæður treysti ég mér því miður ekki til að bera ábyrgð á okkar mikilvægu verkefnum.“

Samningar við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara hafa verið lausir í fjögur ár og þau sem þurfa á þjónustunni að halda eru rukkuð um sérstök komugjöld. Sérfræðingarnir fá bæði greitt frá ríkinu og rukka skjólstæðingana því til viðbótar og önnur birtingarmynd á samningsleysinu eru lengri biðlistar.

Í bréfi sem María, fyrir hönd Sjúkratrygginga, sendi fjárlaganefnd Alþingis í haust voru athugasemdir stofnunarinnar við vanfjármögnun ítrekaðar. Með fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir enn meiri niðurskurði sem að mati Maríu og samstarfsfólks hennar mun leiða til mikillar skerðingar á þjónustu við landsmenn. Það er komið nóg, herra forseti, af stefnu- og ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum. Hvað þarf til svo að Framsókn og Vinstri græn stígi á bremsuna og snúi frá sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins? Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvað getur hann sagt okkur meira um þessa stöðu og hvað ætlar hann að gera í málinu?