153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:41]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að vinna á biðlistum í heilbrigðiskerfinu og byrja á því að fagna þeim viðbótarfjármunum upp á 750 milljónir sem gert er ráð fyrir núna á milli umræðna í fjárlagafrumvarpinu til þess að stytta biðlista, þá sérstaklega eftir liðskiptaaðgerðum. Um leið vil ég líka fagna því að samið hafi verið við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu sem er gott dæmi um það hvernig hægt er að nýta krafta einkaframtaksins til að stytta biðlista. En á sama tíma sjáum við fjölgun umsókna í liðskiptaaðgerðir og ekki síst efnaskiptaaðgerðir erlendis og hvernig þeir biðlistar hafa lengst og áætla Sjúkratryggingar Íslands að um 328 muni sækja um á þessu ári um að leita sér meðferðar erlendis, sem hefur stóraukinn kostnað og óþægindi og annað slíkt í för með sér og er hvorki hægt að kalla skilvirka heilbrigðisþjónustu né góða nýtingu á fjármunum. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig fyrirhugað er að nýta þessa aukafjármuni og hvað undirbúningur sé kominn langt og hvenær við megum vænta árangur þess. Einnig hvernig hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að biðlistarnir verði styttir og hvort það muni þá ekki draga úr ferðum erlendis og hvað það séu miklir fjármunir til þess að ráðast í þessar aðgerðir, hvort það sé ekki eitthvað umfram þessar 750 milljónir ef við erum að spara okkur ferðir til útlanda og aðra fjármuni sem eru til nú þegar í kerfinu.