Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ekkert um okkur án okkar. Það er hægt að tala mikið um öryrkja. Það er mikið talað um almannatryggingar þegar við erum að berjast fyrir þann hóp. Flokkur fólksins hefur mælt fyrir frumvarpi um 400.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Við erum að glíma við 9,3% verðbólgu, við erum að glíma við okurvexti, en þá er bara búið að setja málið í nefnd. Það er kominn hópur til að reyna að teikna það upp hvernig hægt er að koma öryrkjum til starfa. Hið svokallaða starfsgetumat virðist vera það sem helst á að leggja áherslu á. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt: Leyfum öryrkjum að vinna ef þeir geta. Leyfum þeim að koma út á markaðinn án þess að skerða þau í einu eða neinu, gefum þeim tækifæri á því að bjarga sér sjálf án skerðinga. Hæstv. ráðherra sagði að hann væri tilbúinn að fella þröskulda og gefa fólki kost á því að bjarga sér sjálft en það er ekki það sem er verið að gera í dag. Við erum ekki að gefa öryrkjum færi á því að bjarga sér sjálf. Við festum þau kirfilega í þunglyndi, vanlíðan og depurð í þessari ógeðslegu og rammgerðu fátæktargildru sem hefur verið byggð utan um þau í mörg ár. Það þarf úrbætur og það þarf að gera þær strax. Við getum ekki lengur horft upp á það að kalla þurfi á sérstaka uppbót í desember þegar við vitum að þessi þjóðfélagshópur lifir við sára neyð. Hann hefur ekki tíma og hann hefur ekki ráð á því að bíða lengur. Það er ekki eftir neinu að bíða. Hér er fjárveitingavaldið. Hér er löggjafinn. Hér erum við að vinna fyrir fólkið í landinu og ekki síst það fólk sem á bágast í samfélaginu og þarf mest á okkur að halda.