Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég ætla að taka hana út frá alvarlegri stöðu heilbrigðiskerfisins og úrræðaleysi stjórnvalda. Margumrætt og marggagnrýnt samningsleysi stjórnvalda við sérfræðilækna, sjúkraþjálfara og sálfræðinga kemur illa við allan almenning en einna helst við öryrkja. Við vitum að því miður hafa öryrkjar alla jafna minna á milli handanna og því bíta gjaldskrárhækkanir þessara sérfræðinga, sem eru afleiðing af samningsleysi, af samningsgetuleysi stjórnvalda verst á þessum hópi, á hópi sem sennilega þarf að jafnaði hvað mest á þessari þjónustu að halda. Svona hefur staðan verið í nokkur ár, hún hefur verið svona í líftíma þessarar ríkisstjórnar. Þetta þýðir einfaldlega að annaðhvort neita öryrkjar sér um heilbrigðisþjónustu með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum, jafnvel skelfilegum afleiðingum, fyrir heilsu og líðan eða láta sig hafa það að borga sérstaklega úr eigin vasa fyrir handvömm ríkisstjórnarinnar. Það liggur í hlutarins eðli að þessi fráleita staða bitnar á fólki sem stjórnvöld ættu að vera að styðja hvað mest.

Fyrirspyrjandi spyr eðlilega af hverju ráðherra hafi ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að öryrkjar lendi í þeirri stöðu að greiða fyrir úr eigin vasa. Þessi spurning hefur verið margendurtekin hér í þingsal, af fjölmiðlum, af notendum þjónustunnar, af öllum sem láta sig svarið varða, en svörin hafa verið rýr. Eitt er þó ljóst: Fjárlög hverrar ríkisstjórnar eru leiðarljós hennar þar sem áhersluatriði koma í ljós en það er ekkert í þeim fjárlögum sem við ræðum þessa dagana sem gefur til kynna að ráða eigi bót á þessari óheillastöðu. Það er ekkert í fjárlagafrumvarpinu og það er ekkert í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta er forgangsröðunin, frú forseti, svart á hvítu, því miður.