Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

Málefni öryrkja.

[16:32]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hefur farið fram hér í dag, og sérstaklega framsögumanni hennar. Ég verð þó að segja að mér finnst sumir þingmenn tala eins og ekkert hafi verið gert, ekkert sé að gerast og sennilega muni ekkert gerast. Mér finnst þeir þingmenn vera of fastir í því hvernig þetta var þó svo að vissulega sé ekki búið að breyta öllu kerfinu. En það er greinileg hreyfing á málum og ég held að það sé alveg sanngjarnt að segja að svo sé.

Mig langar t.d. að rifja það upp að ríkisstjórnin setti 4 milljarða á síðasta kjörtímabili í að draga úr krónu á móti krónu skerðingu og hækka greiðslur til þeirra sem minnst höfðu. Mig langar líka að rifja upp að falli á krónunni hefur verið útrýmt, það var gert um síðustu áramót eftir að ég tók við og hafði það ekki verið gert áður. Ég vil líka rifja upp að við erum núna að hækka frítekjumark atvinnutekna sem er mikilvægur hvati fyrir atvinnuþátttöku, því er ekki að neita. Ég vil líka rifja það upp að hér hefur verið lagt fram frumvarp um lengingu endurhæfingartíma sem mun sérstaklega gagnast þeim sem eiga við langvarandi andleg veikindi að stríða.

Vegferðin er því hafin og ég held að við eigum að sameinast um að fagna því að sú vegferð sé hafin. Fram undan er ýmislegt. Það þarf að fækka bótaflokkum, það þarf að draga úr tekjutengingum og það þarf að einfalda þetta kerfi sem er allt of flókið. Það þarf að finna fleiri störf, hlutastörf og sveigjanleg störf, og þar þarf sameiginlegt átak sveitarfélaga, ríkis og atvinnulífsins. Og sú vinna er í gangi. Þau eru kannski ekki mörg sem hafa engar aðrar tekjur sér til framfærslu í þessu kerfi en það þarf að bæta sérstaklega kjör þeirra sem hafa allra lökustu kjörin. Ég treysti þess vegna á stuðning ykkar hv. þingmanna í að koma þeim breytingum í gegn, bæði þeim sem lagðar hafa verið fram hér á Alþingi og þeim sem munu verða lagðar fram eftir áramótin.