Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

skráning raunverulegra eigenda.

226. mál
[18:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda. Þetta frumvarp er liður í umfangsmiklum aðgerðum sem íslenska ríkisstjórnin hefur þurft að ráðast í vegna þess að við lentum á gráum lista FATF-samtakanna, sem var mjög alvarlegt mál. Ég verð að taka undir með hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, um að við höfum sofið á verðinum. Ég vildi reyndar bæta um betur og segja að það var enginn vörður á staðnum og það var það sem okkur var bent á. Helsta ástæðan fyrir því að við lentum á gráum lista var að innviðirnir okkar voru ekki í stakk búnir til að fylgjast með hvort lögum til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka og peningaþvætti væri yfir höfuð fylgt. Ég held að það hafi verið einstaklingur í hálfri stöðu að skrifa tilkynningar á pappír á löngu tímabili og það m.a. á meðan fjárfestingarleið Seðlabankans var í gangi og íslensk yfirvöld áttu að hafa eftirlit með því hvort það væri nokkuð notað til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. En eins og komið hefur í ljós eftir að við vorum sett á þennan gráa lista var enginn að fylgjast með því. Þess vegna, bara svona hliðaratriði við það, er auðvitað mikilvægt að við fáum rannsóknarnefnd um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. En það hefur ekki enn fengið náð fyrir augum þeirra sem öllu ráða hér.

Þetta frumvarp er í sjálfu sér ágætur pappír. Það er fínt að setja einhver ákvæði sem geta knúið á um slit á félögum sem ekki uppfylla þessi skilyrði og mér skilst að rökin fyrir því að þetta sé bara bráðabirgðaákvæði séu að eftir að þetta síðasta átak er búið þá sé það skilyrði fyrir skráningu að skrá raunverulega eigendur, þannig að þú kemst ekki inn í fyrirtækjaskrá eða skráningu nema þú hafir skráð raunverulega eigendur. Það breytir því ekki að það hlýtur eitthvað að þurfa að taka við þegar raunverulegir eigendur breytast og ég þyrfti svo sem bara kanna hvernig þetta spilar saman.

En mér finnst áhugavert að þetta sé að koma svona í gegn vegna þess að hér virðist eiga að beita, hvað eigum við að segja, meiri þunga gagnvart — það sem eftir er eru aðallega einhver félagasamtök eða eitthvað slíkt. Það virðast vera þeir sem mest eftir standa. Það á að beita meiri þunga gagnvart þeim og slíta jafnvel þeirra félögum eða alla vega taka þau af fyrirtækjaskrá ef þau skila ekki inn raunverulegum eigendum, sem er svo sem gott og blessað, heldur en gagnvart fyrirtækjum sem skila ekki ársreikningi á réttum tíma vegna þess að það er búin að vera heimild í lögunum okkar frá 2016 til að slíta félögum sem skila ekki ársreikningi innan 14 mánaða á þeim tíma sem þeim ber að skila. En það er ekki hægt að nýta þessa heimild vegna þess að ráðherrann sem fer með málaflokkinn — það var lengst af hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem þá var atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, held ég að ráðuneytið hafi heitið þá, og ég tel að þessi málaflokkur hafi farið til hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra Lilju Alfreðsdóttur, en hún er náttúrlega kannski nýkomin með þetta verkefnasvið — er ekki búinn að setja reglugerð um nánari útfærslu á því hvernig eigi að beita þessu fyrirkomulagi, þessu ákvæði um að það sé hægt að slíta fyrirtæki sem skilar ekki inn ársreikningi. Þannig var það t.d. að Samherji Holding, alla vega 14. ágúst 2021, það er kannski búið að breytast en alla vega voru þeir ekki búnir að skila þá inn ársreikningi fyrir árið 2019 og ef ráðherra hefði verið búinn að vinna vinnuna sína og skila reglugerð um hvernig ætti að slíta félögum þá hefði bara verið hægt að slíta Samherja Holding fyrir að vera ekki búinn að skila ársreikningi.

Ég grennslaðist aðeins fyrir um þetta, virðulegi forseti. Ég athugaði hvort þessi reglugerð væri komin inn núna. Mér sýnist í fljótu bragði ekki svo vera. Ef svo er þá hvet ég hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra til að láta mig vita og ég biðst afsökunar fyrir fram ef ég hef rangt fyrir mér. En mér sýndist a.m.k. við skoðum laganna að það væri ekki búið að bæta úr þessu. Það er auðvitað miður vegna þess að þetta er atriði sem skiptir líka gríðarlega miklu máli fyrir gagnsæi og að almenningur og fjölmiðlar geti veitt virkt aðhald og bara almennt þegar kemur að eftirliti og eftirlitsheimildum og getu íslenskra eftirlitsstofnana til þess að hafa raunverulegt eftirlit með raunverulegum eigendum og ársreikningaskrá fyrirtækja, og hvað sem það nú er, þá erum við einhvern veginn eftirbátar þeirra þjóða sem við helst viljum bera okkur saman við og fáum endurtekið á okkur áfellisdóma eins og þann að vera sett á gráan lista FATF, sem var töluvert stærra mál, held ég, heldur en einfaldlega að við höfum sofið á verðinum. Það var vissulega miklu stærra mál en það vegna þess að samtök eins og FATF setja ekki land eins og Ísland á gráan lista að gamni sínu. Það var vegna þess að það voru verulegir annmarkar á þeim ramma sem liggur utan um þetta kerfi okkar allt.

Eitt af stærstu atriðunum sem vantaði líka er gagnger fræðsla um hvernig eigi að bera kennsl á hættumerkin, hvernig eigi að bera kennsl á grunsamlegar millifærslur, hvernig eigi að rannsaka svona mál. Það vantaði þjálfun, vantaði starfsfólk sem er með viðeigandi þjálfun o.s.frv. Þetta er eins og rauður þráður þegar kemur að öllum svona heilindarömmum sem við þurfum að hafa í okkar störfum, sem við þurfum að hafa í okkar samfélagi. Tökum t.d. mútubrot. Vinnuhópur OECD gegn mútum var með úttektarskýrslu, ef ég man rétt, árið 2010, eða hvort það var GRECO. Við fengum a.m.k. 17 tilmæli um hvernig við tökumst á við mútubrot á alþjóðlegum vettvangi. Það voru tilmæli sem voru send til íslenskra stjórnvalda árið 2010 og af þeim 17 var búið að uppfylla tvenn í fyrra. Síðan eru liðin 12 ár. Þetta eru auðvitað þrjú kjörtímabil í eðlilegu árferði en auðvitað eru þau búin að vera fleiri í því óeðlilega árferði sem við höfum verið í. Það sem stóð til að gera þar var einmitt líka víðtæk fræðsla, fræðsluátök, að fræða opinbera starfsmenn, fræða endurskoðendur, fræða alla þá sem vettlingi geta valdið í baráttunni gegn erlendum mútubrotum um hvers beri að líta til, um tilkynningarskylduna, um verklagið í kringum svona brot, um einfalda fræðsluskyldu. Öll þessi tilmæli voru óuppfyllt, tilmæli frá 2010, svo ég endurtaki það, það hefur ekki farið fram neitt sérstakt fræðsluátak til að bregðast við brotum sem þessum og alveg frá því að okkur var bent á að það skorti tilfinnanlega á fræðslu um tilkynningarskyldu, ummerki um mútubrot og fleira þá er þetta samt sem áður allt óuppfyllt. Það er ekki að sjá að nein vinna sé í gangi við að uppfylla það fyrir næstu skýrslu sem á að vera í ár, 12 árum seinna.

En þetta er eins og með svo margt, við höfum einhvern veginn ekkert lagt upp úr því að vera metnaðarfull á þessu sviði, að reyna að koma þessum málum í gott horf vegna þess að erlend mútubrot eru auðvitað nátengd peningaþvætti, nátengd fjármögnun hryðjuverka, nátengd þessum málaflokki sem FATF fjallar mikið um og þessi lög um mútubrot og fjármögnun hryðjuverka fjalla um. Þetta er allt af sömu gerð. Þetta er ákveðin hringrás. Mútur fara jú eins og við höfum séð oft í gegnum einhvers konar peningaþvætti áður en þær eru greiddar og flókinn vef fyrirtækja, sérstaklega einhverra fyrirtækja eins og á Seychelles-eyjum eða öðrum Panama-stöðum, áður en þær eru greiddar til þess að það sé erfiðara að rekja þær. Við lendum á gráum lista FATF vegna þess að við höfum ekkert lagt upp úr því að hafa styrka umgjörð um þetta.

Nú er svo sagt að við séum búin að klára þetta bara en séum í svona eftirfylgni. Nú er ég í Evrópuráðinu og þar er talað um, með leyfi forseta, svokallað „post-monitoring dialogue“, eða eftir-eftirlitssamtal. Ætli þetta sé ekki svona það sem FATF hefur sagt um stöðu Íslands, svipað nema kannski aðeins alvarlegra, vegna þess að samkvæmt FATF erum við enn undir mjög stífu eftirliti. Það stendur hér að Ísland verði áfram í auknu eftirliti og muni halda áfram að upplýsa FATF um árangur sem næst í að uppfylla þær aðgerðir sem þarf að uppfylla samkvæmt FATF til þess að við séum með allt okkar á þurru. Ég sé að það er tafla hérna. Það er hægt að skoða stutta — þetta eru þrjár blaðsíður um stöðu Íslands 2021 gagnvart FATF, þarna eru skýrslur sem ná aftur til 2018, við erum enn þá með alveg þó nokkur atriði. Ég myndi, þegar ég lít yfir þessa töflu, segja að það séu þó nokkur atriði þar sem við erum ekki enn þá búin að uppfylla fyllilega okkar skyldur. Svo eru hérna tvö atriði þar sem við erum bara búin að uppfylla hluta þannig að það er ekki þannig að við séum búin að öllu samkvæmt FATF en það er ekki útlistað mjög skýrt hér hvað það er sem við eigum eftir og þarf kannski að leggjast í meiri vinnu til að komast að því nákvæmlega hvað það er sem situr eftir í þeim efnum. Þannig að þetta er ekki lokaskrefið í þeirri vinnu að koma okkur af tossalista FATF, ef svo mætti að orði komast, en vissulega skref í rétta átt.

Ég tók nú þetta hliðarspor með ársreikningana, virðulegi forseti, vegna þess að ég er að bera þetta saman. Hér erum við að setja ákvæði sem leyfir okkur að slíta félögum og ég vona að þetta lendi ekki í sömu vandræðum og lögin með ársreikninga, að það vanti einhver tilmæli eða reglugerð eða verkefnalýsingu frá ráðherra þannig að þetta megi vera notað eins og í lögum um ársreikninga vegna þess að auðvitað er það okkur öllum til hagsbóta að lögum sé fylgt og auðvitað á það að kosta fyrirtæki meira en 600.000 kr. að skila ekki ársreikningi, jafnvel svo árum skiptir. Það er náttúrlega ekkert mál fyrir fyrirtæki eins og Samherja. Það er sambærileg heimild í lögum en það er ekki hægt að nýta hana. Ég vil því nota þetta tækifæri til að hvetja hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra enn eina ferðina til að drífa í að setja þessa reglugerð ef hún er ekki nú þegar farin af stað með það til þess að það sé líka hægt að slíta félögum sem skila ekki ársreikningum.