Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

orð þingmanns í hliðarsal.

[19:57]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Frú forseti. Ég ætla að fá að taka undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni. Ég var hér uppi í pontu að nýta, eins og hv. þingmaður segir, minn sjálfsagða rétt til að fjalla um mál því að hlutverk löggjafans er jú að taka umræðu um lögin sem við erum að setja hér á hinu hv. Alþingi. Svo heyri ég út undan mér í hliðarsalnum — ég heyrði ekki einu sinni hvað hann sagði, þetta var bara smá truflun, sem er auðvitað miður út af því að þetta eru ekki lítil lög sem er verið að samþykkja hér. Ég tek hlutverki mínu sem löggjafa fremur alvarlega, frú forseti. Það að þingmenn, sem hafa áhuga á málum sem verið er að samþykkja hér á hinu hv. Alþingi, taki langa og góða umræðu um málin og nýti sinn tíma sem er kveðið á um í þingsköpum til að tala um téð mál er auðvitað bara sjálfsagður hlutur. Það eru alger forréttindi sem við höfum hér til að setja lög og vera lýðræðislega kjörin til þess. Ég ætla bara að fá að segja að mér fannst þetta vera mjög mikil vanvirðing við störf Alþingis.