Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

279. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrrnefndum lögum vegna fyrirhugaðrar innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2020/1055 frá 15. júlí 2020. Um er að ræða breytingar til einföldunar á ákvæðum laganna er varða leyfisveitingar. Þá er lögð til breyting á gildissviðsákvæði laganna þannig að ráðherra verði falið að kveða á um leyfða heildarþyngd þeirra ökutækja til farmflutninga í atvinnuskyni sem lögin gilda um í reglugerð í stað þess að heildarþyngdin sé tilgreind í lögunum, og að við lögin bætist innleiðingarákvæði.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og þar barst ein umsögn og greint er frá því í nefndaráliti sem liggur hér frammi. Nefndin fjallaði um mat á áhrifum frumvarpsins en við framlagningu þess fylgdi því ekki kostnaðarmat líkt og skylt er samkvæmt 37. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991 og 66. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015. Nefndin kallaði eftir kostnaðarmati frá innviðaráðuneytinu og barst það með minnisblaði. Þar kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins komi til með að hafa óveruleg áhrif á útgjöld og tekjur ríkisins.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting við 1. gr. frumvarpsins. Í þeirri grein frumvarpsins er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um það í lögunum að gildissvið þeirra sé bundið við flutninga með ökutækjum með leyfða heildarþyngd yfir tilteknum mörkum, að því er varðar farmflutninga á landi, verði ráðherra falið að útfæra slík mörk í reglugerð. Sú tillaga var ekki rökstudd í greinargerð frumvarpsins og telur nefndin að betur fari á að kveðið sé á um slík viðmiðunarmörk í lögum og leggur til breytingartillögu þess efnis. Taka þau mörk sem lögð eru til mið af ákvæðum framangreindrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins.

Í öðru lagi er lögð til orðalagsbreyting við 4. gr. frumvarpsins í 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna. Þar kemur fram að eitt skilyrða leyfis samkvæmt 1. málslið sé að umsækjandi hafi rekstrarleyfi annaðhvort sem ferðaskipuleggjandi eða ferðaskrifstofa. Í umsögn Ferðamálastofu var bent á að með lögum um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, kom inn nýtt heiti, ferðasala dagsferða, í stað ferðaskipuleggjanda. Það sem áður hét leyfi ferðaskipuleggjanda sé því leyfi ferðasala dagsferða samkvæmt lögum um Ferðamálastofu. Leggur nefndin til breytingu á 4. gr. til að tryggja rétta hugtakanotkun að þessu leyti.

Að öðru leyti vísast til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu sjálfu.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert hefur verið grein fyrir hér.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Vilhjálmur Árnason, Andrés Ingi Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, René Biasone, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Orri Páll Jóhannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.