Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

279. mál
[20:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Þetta er ekki flóknasta frumvarpið sem við höfum afgreitt hér á þingi en mig langaði aðallega að kveðja mér hljóðs til að hrósa samvinnunni í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við að ná utan um það. Þó að þetta hafi ekki verið brattasta fjallið sem hægt er að klífa voru þarna ákveðin atriði sem við þurftum að þvæla okkur í gegnum. Í fyrsta lagi má ég til með að hrósa starfsfólki nefndasviðs. Við yfirferð sína á málinu tóku þau eftir því að það vantaði áhrifamat frumvarpsins. Lögum samkvæmt ber ráðherra að leggja mat á áhrif frumvarpa fyrir framlagningu og sérstaklega er tekið fram að leggja skuli mat á fjárhagsleg áhrif þeirra, en mig minni að einhverjir 12 ólíkir áhrifaþættir séu taldir upp í gátlista ríkisstjórnarinnar fyrir framlagningu stjórnarfrumvarpa. Hér bara gleymdist það þannig að nefndasviðið tók sig til og hafði samband við ráðuneytið og benti á annmarkann og úr því var bætt með því að ráðuneytið skilaði minnisblaði til þingsins sem gerð hefur verið grein fyrir í nefndaráliti og minnisblaðið liggur frammi á vef Alþingis.

Þetta leiðir hugann að því hve það er oft látið undir höfuð leggjast að uppfylla þetta lögbundna hlutverk til að tryggja gæði lagasetningar. Í þessu tilviki þá held ég við getum alveg sagt að þetta hafi verið giska meinlaust þar sem umfang þeirrar starfsemi sem frumvarpið fjallar um er afskaplega lítið og áhrifin, jafnt á almenning og ríkissjóð, hverfandi. En við sjáum þess dæmi allt of oft að áhrifamatið er lítið í sniðum og stundum vantar það alveg. Ef það er til staðar þá er það stundum í algerri mýflugumynd þar sem þingið er kannski ekki í neinni aðstöðu til að meta á hverju áhrifamatið byggir og stundum er niðurstaðan á skjön við það sem almenn skynsemi og hyggjuvit segir okkur að sé hin eðlilega niðurstaða.

Ég ætla ekki að gera þetta að einhverju miklu umtalsefni en mig langar að nefna tvö eða þrjú dæmi um þetta svo að forseti skilji hvert ég er að fara. Við erum t.d. með frumvarp um landamæri til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Þar var bent á að samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá hefði ekki verið metið, áhrif á mannréttindi. Samt eru ákvæði í frumvarpinu sem snerta beint við mannréttindum viðkvæmra hópa. Það eru ákvæði sem snúast um það að geta brottvísað fólki nánast á stundinni þegar það kemur til Keflavíkur. Það er verið að taka ákvörðun um að vald til þess flytjist frá Útlendingastofnun, sem er ekki endilega mitt uppáhaldsstjórnvald, og fari til lögreglunnar sem ég er ekki viss um að sé endilega með sérfræðiþekkingu sem þarf til að gera þetta þannig að öll mannréttindi séu tryggð, að það sé örugglega hægt að skima fyrir því t.d. hvort fólk er á flótta. En þessu áhrifamati sleppti dómsmálaráðuneytið og orðalag í greinargerðinni minnir mig að hafi verið á þá leið að ekki hafi verið talin ástæða til að ætla að þetta hefði einhver áhrif á mannréttindi eða réttindi fólks. Mér finnst það almennt slakt en mér finnst það sérstaklega slakt frá ráðuneytinu sem samkvæmt forsetaúrskurði fer með samræmingu og gæði lagasetningar. Ég hefði búist við betri vinnubrögðum á þeim bænum.

Og svo er það gamla góða jafnréttismatið, þ.e. mat á áhrifum frumvarpa á stöðu kynjanna. Það hefur verið yfirlýst forgangsverkefni stjórnvalda að innleiða það síðustu 10–15 árin en gengur bölvanlega illa. Það skín svo gjarnan í gegnum jafnréttismatið að það komi til sögunnar á seinni stigum í vinnslu mála þannig að það er kannski notað meira lýsandi frekar en að það sé notað til að móta ákvarðanatökuna. Hér er kannski ágætt að rifja það upp þegar við fórum í gegnum ýmsar sértækar aðgerðir til að bregðast við Covid-faraldrinum þar sem stóð meira að segja í einhverjum frumvörpum að búið væri að meta áhrif aðgerðanna á stöðu kynjanna og það mat hefði bara komið ógeðslega illa út. Þetta voru aðgerðir sem hygluðu einu kyni frekar en öðrum. Það var bara allt í lagi. Ekki var verið að nota matið til að breyta tillögunum þannig að þær myndu kannski rétta þá skekkju sem er í samfélaginu, en ég hefði einmitt haldið að jafnréttismat væri verkfæri til að gera það.

Mig langar svo að nefna, án þess að vera með dæmi um frumvarp í því tilviki, blessaða loftslagsmatið, mat á áhrifum frumvarpanna og áætlana sem fara hér í gegn á stöðu og þróun loftslagsmála. Ég nefni dæmi um samgönguáætlanir sem við fengum tvær í gegn á síðasta kjörtímabili og aldrei voru metnar sérstaklega út frá þessu. Þær áætlanir fóru í gegnum hið lögbundna umhverfismat áætlana en ekki hið sérstaka loftslagsmat sem talað var um eins og einhvern nýjan hlut í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar á því kjörtímabili en hefur síðan aldrei verið fylgt eftir.

Þetta var það fyrsta sem mig langaði að nefna, að hrósa sérstaklega starfsfólki nefndasviðs fyrir að hafa áttað sig á því að áhrifamat með frumvarpinu vantaði og að ráðuneytið hafi brugðist svo vel við að við gátum í þinglegri meðferð bætt úr þessum ágalla.

Annað atriði sem mig langar að nefna snýr að nefndinni sjálfri og þeim óvenjulega hlut sem átti sér stað í umfjöllun nefndarinnar, þ.e. að það var rætt nokkuð opið um málið og tekið tillit til athugasemda sem komu, að mig minnir, fyrst frá fulltrúum minni hlutans í nefndinni. Þær athugasemdir voru bornar undir ráðuneytið, hvort það gæti fellt sig við breytingartillögu í þeim anda, og ráðuneytið tók bara vel í það. Það er leiðinlegt frá því að segja, frú forseti, að þetta gerist mjög sjaldan. Þó að fram komi málefnalegar ábendingar frá fulltrúa minni hluta í nefndum heyrir til undantekninga að þeim sé tekið jafn vel og gerðist í þessu tilviki í umhverfis- og samgöngunefnd og því ber að hrósa.

Ég er hér að tala um þá breytingu sem lögð er til í 1. lið breytingartillögu nefndarinnar. Til að útskýra hana, af því að þessar tölur allar, þessi tonn og kílómetrar, hrærast dálítið í graut hjá okkur þegar við fjöllum um þetta, ætla ég að fá að lesa, forseti, greinina eins og hún er í frumvarpinu, útskýra þannig þann galla sem við fundum á þessu. Í 1. gr. frumvarpsins stendur:

„B-liður 1. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: farmflutninga á landi í atvinnuskyni með vélknúnum ökutækjum eða samtengdum ökutækjum þar sem leyfilegur hámarkshraði ökutækjanna er 45 klst. eða meiri og leyfð heildarþyngd ökutækjanna er yfir mörkum sem ráðherra kveður á um í reglugerð.“

Það er þessi síðasti liður sem stóð svolítið í okkur í nefndinni. Við lestur greinargerðar og í umfjöllun ráðherra og ráðuneytis um málið er alveg ljóst að þessi mörk liggja alveg fyrir. Það liggur fyrir hvaða heildarþyngd stendur til að miða við vegna þess að hún stendur einfaldlega í Evrópureglum sem þessi 1. gr. byggir á. Hún er sem sagt 3,5 tonn eða 2,5 tonn í farmflutningum á milli landa. Við umfjöllun í nefndinni bentum við á það, sem við gerum gjarnan, að hér er að óþörfu verið að framselja löggjafarvaldið til framkvæmdarvaldsins. Af hverju þarf ráðherra að setja reglugerð um eitthvað sem er langeinfaldast að setja bara í lagatexta? Það er skýrara fyrir almenning og þar með er Alþingi að taka ákvörðunina frekar en að segja ráðherra að gera það og það verður bara alveg sama ákvörðunin. Það var hressandi, vil ég segja, forseti, að vel var tekið í þetta í nefndinni. Því er helsta efnisbreytingin sem nefndin leggur til þessi 1. liður breytingartillögunnar sem sprettur upp úr samtali í nefndinni.

Mig langar svo að nefna, vegna þess að ég heyrði það í andsvörum hv. þingmanna áðan, Ingibjargar Isaksen og Gísla Rafns Ólafssonar, að hraðamörkin eru örlítið á reiki. Ég heyrði hv. þm. Ingibjörgu Isaksen tala um að hér væri um að ræða ökutæki sem fari ekki hraðar en 45 km á klukkustund. Þessu er einmitt öfugt farið. Það er kannski rétt að taka það fram bara upp á skýrleikann. Hér stendur að um sé að ræða tæki þar sem leyfilegur hámarkshraði ökutækjanna sé 45 km á klukkustund eða meira. Við erum að tala um bíla sem geta ekið á þjóðvegum, þetta eru ekki einhverjar golfkerrur. Við erum auk þess með örlítið misræmi á milli gerðarinnar sem verið er að innleiða og lagatextans þar sem reglugerð Evrópusambandsins miðar við 40 km. Ég skal viðurkenna að mér finnst það aðeins fallegra, mér finnst fallegt að enda á heilum tug, en þessi hálfi tugur var ekki valinn til að gæta samræmis við Evrópureglurnar heldur til að vera með meira innra samræmi við íslenskt regluverk. En 45 km mörkin eru t.d. notuð til að ákvarða í hvaða flokk dráttarvélar falla. Ef þær fara hægar en 45 km að hámarki eru aðeins liprari reglur utan um það. Ég vildi bara rétt nefna þetta, þarna þarf aðeins að leiðrétta það sem fór fram á milli hv. þingmanna hér áðan.

Að lokum langaði mig að segja: Ef einhver í salnum er jafn forvitinn og ég varðandi það hvað við erum að fjalla um, hvaða bílar eru á þessu bili, milli 2,5 og 3,5 tonn, þá var ráðuneytið svo almennilegt við okkur varðandi það að veita þær upplýsingar. Við erum hér að tala um sendibíla af stærri gerðinni, 5–6 m langa sendibíla þar sem kannski væri hægt að koma fjórum pallettum fyrir í vörurýminu. Það er millibilið sem verið er að kljúfa með þessari lagasetningu. En eins og kemur fram í áhrifamatinu góða sem við fengum, þökk sé nefndarriturum Alþingis, er rétt að hafa í huga að hér erum við að tala um flutninga þegar verið er að fara á milli ríkja. Vegna landfræðilegrar legu Íslands er ekki mikið um slíka flutninga þannig að það er kannski helst að tollurinn á Seyðisfirði þurfi eitthvað að vinna eftir þessum reglum.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta mikið lengra, frú forseti. Ég ætlaði bara rétt örstutt að kveðja mér hljóðs til að hrósa hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir gott samstarf í þessu máli, og þá sérstaklega hv. framsögumanni nefndarálitsins, og hins vegar að þakka starfsfólki nefndasviðs fyrir að vera það vandvirkt að hér erum við að samþykkja lög með því áhrifamati sem nauðsynlegt er að fylgi ef við ætlum að ástunda vandaða lagasetningu.