Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

farþegaflutningar og farmflutningar á landi.

279. mál
[20:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér er okkur oft legið á hálsi að við hrósum ekki því sem vel er gert en ég vil einmitt nota tækifærið og hrósa hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir ákveðna staðfestu gagnvart ákveðinni meinsemd sem er allt of tíð, að framselja löggjafarvaldið til framkvæmdarvaldsins með reglugerðarheimildum. Það var áhugavert að heyra frá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að þetta hafi verið að frumkvæði minni hlutans en að vel hafi verið tekið í það af nefndinni og um þetta náðist samstaða því að vissulega, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom inn á, er það allt of sjaldgæft að réttmætar og málefnalegar ábendingar minni hlutans séu teknar til greina, sér í lagi í jafn augljósum atriðum og þessum sem um ræðir. Það er því miður allt of sjaldgæft.

Hér er ég auðvitað að vísa til breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli. Ég ætla að fá að vísa í nefndarálit með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að í stað þess að kveðið sé á um það í lögunum að gildissvið þeirra sé bundið við flutninga með ökutækjum með leyfða heildarþyngd yfir tilteknum mörkum, að því er varðar farmflutninga á landi, verði ráðherra falið að útfæra slík mörk í reglugerð.“ Og hér kemur það sem mér finnst einmitt mjög áhugavert og gott að standi í nefndarálitinu: — „Breytingin er ekki rökstudd sérstaklega í greinargerð frumvarpsins. Telur nefndin að betur fari á að kveðið sé á um viðmiðunarmörk um leyfða heildarþyngd ökutækja í lögum og leggur til breytingartillögu þess efnis.“

Í raun stóð nefndin í lappirnar gagnvart ásælni ráðherra í reglugerðarheimild sem engin þörf var á að ráðherra fengi. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta mikilvægt er að dropinn holar vissulega steininn. Ég held að því oftar sem þingið sýnir hugrekki og neiti ráðherrum um óþarfar reglugerðarheimildir verði þingið mögulega dugmeira í að standa vörð um þetta hlutverk sitt.

Reglugerðarheimildir eru því miður allt of algengar og án fullnægjandi raka og láta líka oft bíða ansi lengi eftir sér, þ.e. að ráðherra komi með reglugerðina sem á að fylgja. Oft stendur þessi bið í vegi fyrir ákveðnum verkefnum eða framkvæmd á ýmsum brýnum málefnum, stendur í vegi fyrir því að hægt sé að framkvæma hlutina eða framfylgja lögunum. Mig langar að nota þetta tækifæri til að leiðrétta það sem ég sagði í ræðu hér áðan sem var að það vantaði enn reglugerð um málsmeðferð um slit á búum félaga sem ekki hafa skilað inn ársreikningum en einhvern veginn brást mér þarna bogalistin í að fletta þessu upp vegna þess að vissulega er búið að setja þessa reglugerð, það var gert í október 2021. Það er mögulega þess vegna sem það fór fram hjá mér, það var bara rétt fyrir kosningar og ég var svolítið upptekin þá. En það er mjög gott að það er komið í gagnið. Það verður þó að segjast að fimm ára bið eftir reglugerð sem gerir það að verkum að hægt sé að framkvæma þessi þvingandi úrræði, að slíta félögum sem skila ekki ársreikningum á réttum tíma, er ansi löng bið. Það er bara mjög löng bið og hefur mögulega valdið því að ákveðin tækifæri til að láta þessi lög virkilega bíta hafi glatast. Það má raunar færa fyrir því sterk rök. En gott og vel, þetta er a.m.k. komið í gagnið og þá er kannski hægt að fara að beita þessu.

Fimm ára bið, verður að segjast, er stutt bið eftir að reglugerð sé sett samkvæmt reglugerðarheimild vegna þess að ef við horfum t.d. á lögræðislögin, lög sem fyrst voru sett 1997, virðulegi forseti, þá er þar að finna mjög mikilvæga reglugerðarheimild um að heilbrigðisráðherra — nú er þetta kallað ráðherra sem fer með heilbrigðismál, ekki að það skipti öllu máli — beri að setja nánari reglur um beitingu þvingaðrar lyfjagjafar og annarra þvingunar í nauðungarvistun. Þetta var reglugerðarheimild til ráðherra þannig að hægt væri að setja nánari reglur um gríðarlega stór inngrip í heilsufrelsi fólks, líkamlega friðhelgi fólks, rétt fólks til virðingar og mannúðlegrar framkomu. Þetta var árið 1997 og það er ekki enn þá, virðulegur forseti, komin reglugerð um þetta og er sá lagabálkur raunar algerlega úreltur. En það segir sína sögu að það eru að verða 30 ár frá því að þetta ákvæði var sett inn í lög, 25 ár, og það er ekki enn komin reglugerð sem skýrir nánar hvernig má beita þvingaðri meðferð í nauðungarvistun eða þegar sjúklingur er vistaður nauðungarvistun á spítala. Þetta sýnir hvað biðin eftir reglugerðarheimild getur verið löng.

Síðan erum við með atriði eins og allt of rúmar heimildir ráðherra til að setja reglur. Ég vil meina að reglugerðarheimildin sem til stendur að veita dómsmálaráðherra Jóni Gunnarssyni, vegna vopnaburðar lögreglu, í frumvarpi um breytingu á lögreglulögum, sem er kannski frægara fyrir þau gríðarlegu inngrip sem því er ætlað að opna á að lögreglan geti verið með gagnvart einkalífi alls almennings í landinu, þessar svokölluðu forvirku rannsóknarheimildir eða afbrotavarnir eins og nú er allt í einu orðið móðins að tala um. En þar er minna rætt ákvæði þess frumvarps, 3. mgr. 2. gr., þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra setur nánari reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna hjá lögreglu.“

Þetta ákvæði finnst mér ekki nógu gott. Við vitum að meiri hluti þjóðarinnar, rúm 60%, vill t.d. ekki að lögreglan vopnvæðist eða gangi um með skotvopn. Þar af leiðandi finnst mér liggja í hlutarins eðli að einhver breyting á því að lögreglan sé almennt vopnlaus í sínum störfum ætti a.m.k. að þurfa að fara í gegnum lýðræðislega umræðu á þinginu. Hér er í raun verið að leggja til að lögfesta ákvæði sem stjórnarmeirihlutinn segir að sé í raun ekki að breyta neinum lögum eins og þau eru núna, það sé bara verið að festa þau í lög, formfesta. En hér er lagt til að það sé bara ráðherra sem ákveður með reglugerð hvort lögregla megi t.d. almennt vopnast skotvopnum. Það er eitthvað sem ég tel að ætti miklu frekar heima hér í þingsal að taka ákvörðun um, um jafn veigamiklar breytingar á ásýnd og starfsemi lögreglunnar á Íslandi og þessar.

Reglugerðarheimildir til ráðherra eru mjög vandmeðfarnar og þess vegna vil ég árétta þetta hrós fyrir vel unnin verk. Það er svo mikilvægt að nefndir sýni af og til að þær eru ekki til í að láta ráðherra fá reglugerðarvald yfir hverju sem er, sér í lagi ef reglugerðarheimildin er ekki rökstudd með neinum hætti í greinargerð. Mér finnst þetta gott fordæmi sem ég hvet aðrar nefndir til að taka sér til fyrirmyndar. Sömuleiðis er það að eiga í málefnalegum umræðum sín á milli og komast að ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, líka eitthvað sem mætti stunda töluvert meira og betur hér á landi. Ég vildi bara koma hingað upp til að hrósa nefndinni fyrir vel unnin störf og læt það duga í bili.