Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:43]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingum á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Efni frumvarpsins lýtur að framlengingu á bráðabirgðaákvæði um innleiðingu á notendastýrði persónulegri aðstoð á árunum 2018–2022 eða svokallaðri NPA-þjónustu. Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt til ársloka 2024.

Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, tóku gildi 1. október 2018. Í 11. gr. laganna er kveðið á um að einstaklingur eigi rétt á notendastýrðri persónulegri aðstoð hafi hann mikla og viðvarandi þörf fyrir aðstoð og þjónustu, svo sem við athafnir daglegs lífs, heimilishald og þátttöku í félagslífi, námi og atvinnulífi.

Um er að ræða þjónustuform sem byggist á hugmyndafræði um sjálfstætt líf fatlaðs fólks og hefur það markmið að tryggja mannréttindi þess á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, enda gerir það fötluðu fólki kleift að ráða hvar og með hverjum það býr. Þannig stýra þau hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Þau sem eiga erfitt með að annast verkstjórn vegna fötlunar sinnar eiga rétt á aðstoð við verkstjórnina.

Fyrstu tilraunasamningar um NPA á Íslandi voru samþykktir árið 2012, m.a. á grundvelli áherslna sem komu fram í vinnu verkefnisstjórnar um NPA. Ákveðið var að leita samstarfs við sveitarfélögin um framkvæmd þessarar tilraunar og jafnframt að ríkið legði tímabundið fram 25% af heildarkostnaði við hvern samning. Almennt var litið svo á að með framlaginu væri verið að hvetja sveitarfélögin til þess að gera tilraunir með mismunandi útfærslur á NPA.

Í ákvæði til bráðabirgða I í lögunum er fjallað um innleiðingu NPA þar sem meðal annars kemur fram að til þess að auka val fatlaðs fólks um þjónustu og fyrirkomulag stuðnings skulu sveitarfélög vinna að innleiðingu NPA í samræmi við 11. gr. á tímabilinu 2018–2022. Einnig kemur fram að ríkissjóður skuli veita framlag til tiltekins fjölda samninga um NPA sem yrði ráðstafað í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tiltekinni hlutdeild af fjárhæð samninga, á grundvelli umsókna frá sveitarfélögum. Með setningu laganna var gert ráð fyrir því að innleiðing verkefnisins tæki fimm ár og að heildarfjöldi samninga að lokinni innleiðingu yrði allt að 172 á landsvísu.

Tilefni þessa frumvarps, sem nú er lagt fram, er að sá gildistími sem lagður var til við vinnu að innleiðingu NPA í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I rennur sitt skeið í árslok 2022. Ekki hefur náðst að uppfylla markmið um allt að 172 samninga og ekki hefur náðst að leysa úr öllum þeim álitamálum sem fyrir liggja varðandi þjónustuna á umræddu innleiðingartímabili.

Forveri minn, þáverandi félags- og barnamálaráðherra, skipaði starfshóp um endurskoðun laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Hlutverk starfshópsins var að endurskoða fyrrnefnd lög í heild sinni og þær reglugerðir sem lögunum fylgja með áherslu á að greina þau álitaefni sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Í skýrslu starfshópsins, sem kom út fyrr á þessu ári, sem og í greiningum ráðuneytis og hagaðila, eru tiltekin ýmis álitamál varðandi NPA. Með hliðsjón af þeim álitamálum lagði starfshópurinn til í skýrslu sinni að innleiðingartímabili NPA verði framlengt um tvö til þrjú ár.

Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er lagt til að framlengja ákvæði til bráðabirgða I til loka árs 2024. Með framlengingu er stefnt að því að skapa svigrúm til þess að leysa úr þeim álitamálum sem enn eru óleyst varðandi þjónustuna og tryggja þannig að þjónustan færist með farsælum hætti frá ríki til sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi samninga, að því tímabili loknu, verði allt að 172 samningar á landsvísu en forsendur miðast við að framlag ríkisins verði 7,5 milljónir kr. með hverjum samningi og tekur sú upphæð mið af meðalupphæð núverandi samninga.

Gert er ráð fyrir því að hlutdeild ríkisins verði áfram 25% af heildarfjárhæð samninga á innleiðingartímabilinu á móti sveitarfélögunum. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að í lok árs 2024 hafi ríki og sveitarfélög náð samkomulagi um varanlegt fyrirkomulag, þ.e. kostnaðar- og verkaskiptingu vegna NPA til framtíðar, og verði NPA þá alfarið á ábyrgð sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að umsamin fjárhæð þess samkomulags skuli flutt varanlega frá ríki til sveitarfélaga með fjárlögum 2025 í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Virðulegi forseti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um að við ætlum að fjárfesta í fólki og meðal annars festa í sessi framtíðarfyrirkomulag NPA-þjónustu eða öðru nafni notendastýrða persónulega aðstoð og er þetta frumvarp liður í þeirri vegferð. Með því að fjölga samningum um 50 á næsta ári ætti okkur að takast að hreinsa upp biðlista en samkvæmt skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga 38/2018, voru 44 umsækjendur á bið árið 2021 eftir NPA-þjónustu. Því skal þó haldið til haga að fleiri kunna að óska eftir NPA-þjónustu á næstu misserum auk þess sem ekki liggja fyrir upplýsingar um þjónustuþarfir þeirra sem eru á biðlista. Á árinu 2024 er enn fremur ráðgert að fjölga samningum um 27 þannig að heildarfjöldi samninga verði allt að 172 í árslok 2024.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.