Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:04]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Mig langar að benda á það að í frumvarpinu frá 2018 segir að þetta ákvæði og fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, auk þeirra álitaefna sem koma upp við framkvæmd laga þessara á tímabilinu, skuli endurskoða innan þriggja ára frá gildistöku þeirra í ljósi fenginnar reynslu. Og til þess var skipaður starfshópur sem fór yfir málið og kom með þær tillögur, þannig að það sé nú kirfilega sagt hér enn eina ferðina, að framlengja bráðabirgðaákvæðið um tvö til þrjú ár. Þannig að hér er verið að fylgja því samráði sem haft átt hefur sér stað í þessum starfshópi sem sveitarfélögin koma m.a. að.

Það sem ég get fullyrt hér er að við erum með trygga fjárveitingu fyrir árið 2023. Eðlilega erum við ekki með trygga fjárveitingu fyrir árið 2024 vegna þess að hún er ekki inni í fjármálaáætlun. En við þurfum að vinna að því að koma þessu þar inn. Síðan vil ég bara minna hv. þingmann á það að ráðherra er ekki með heimild til að fara fram úr fjárheimildum, að sjálfsögðu ekki. En við miðum þennan fjölda sem hér er settur fram við ákveðin viðmið sem er meðalkostnaður við hvern samning á síðustu árum.