Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:24]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni kærlega fyrir sitt innlegg hér, sem var um margt ágætt. Þegar ég tala um að sveitarfélögin þurfi líka að skoða málin hjá sér og bendi m.a. á 15 tímana samkvæmt lögum um Félagsþjónustu sveitarfélaga, þá er það bara mjög eðlilegt að benda á að sveitarfélögin þurfi að uppfylla þá tíma. Það er ekki á hreinu hvort það er alls staðar þannig. En ég ætla bara að taka það mjög skýrt fram að ég var ekki að tala um að sveitarfélögin eigi að lækka laun eða ekki að hækka laun við fólkið sem vinnur í þessari þjónustu. Því fer nú aldeilis fjarri. Ég er einfaldlega að segja að gerð kjarasamninga, stytting vinnuvikunnar, er eitthvað sem sveitarfélögin semja um. Sveitarfélögin fá greitt útsvar, það er þeirra tekjustofn. Eitthvað af þeim tekjustofni hlýtur að fara m.a. í launahækkanir og annað slíkt. Þannig að það sé algjörlega á hreinu er ég ekki að gagnrýna launahækkanir til þess fólks sem vinnur við þessa þjónustu. Þetta er nú mestallt láglaunafólk. Það væri þá heldur að ég færi að gera það, það er bara alls ekki svo.