Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:28]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég og hæstv. ráðherra erum þá sammála um að reyna að róa að því öllum árum að bæta þessa þjónustu. Auðvitað þurfa sveitarfélögin að horfa inn á við og skoða hvernig þau veita þjónustuna. En ég vil bara minna á að í þessum málaflokki eins og svo mörgum öðrum eru grá svæði sem trufla umræðuna. Hérna er t.d. verið að skoða á köflum: Er þetta félagsþjónusta eða er þetta heilbrigðisþjónusta? Málaflokkur fatlaðra hefur verið skilgreindur sem félagsþjónusta en ekki heilbrigðisþjónusta. En staðreyndin er hins vegar sú að við erum að ræða hér kannski fötluð lítil börn sem vilja fá að vera heima hjá mömmu og pabba en ekki í einhverju sérhæfðu sjúkrarými úti í bæ. Sveitarfélög þurfa oft að taka á þessu með ærnum tilkostnaði og sá tilkostnaður hefur oft og tíðum ekki verið bættur.