Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er gott að hlusta á hv. þingmann tala í þessu máli og sækja í brunn reynslunnar sem sveitarstjórnarmaður af því að þetta er klassískt dæmi um ágreining á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga sem enginn skilur neins staðar í samfélaginu. Ef Alþingi er búið að samþykkja að það eigi að veita fólki þessa þjónustu, hvers vegna eru einhverjir starfshópar árum saman að finna út úr því hvort ríkið ætli að taka 25 eða 30%?

Í mínu fyrra andsvari langar mig að rifja upp að í greinargerðinni er talað um að kostnaðarhlutdeildin verði endurskoðuð á endurskoðunartímabilinu. Það er ekkert talað um að það þurfi að gerast í blálokin eins og stefnir í núna heldur er meira að segja sagt að ráðuneytið telji rétt að það verði látið reyna á núverandi skiptingu í tvö ár og að þeim tíma liðnum tekin ákvörðun um varanlega skiptingu. Sú framtíðarsýn sem birtist 2018 snerist ekki um (Forseti hringir.) að það tæki fjögur ár að finna út úr því hvort það ættu að vera 25 eða 30% sem ríkið tæki. (Forseti hringir.) Samband íslenskra sveitarfélaga hefur alltaf verið mjög skýrt á þessu og alltaf með góð rök. Þetta lá bara alltaf fyrir.