Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Forseti. Fögur fyrirheit mega ekki bara vera orð á blaði. Við verðum að gera eitthvað með þau. Því miður hefur oft loðað við pólitík að menn setja einhver orð á blað sem eru í raun og veru, að mínu mati, bara orðagjálfur og ekkert á bak við það, kannski til að ná sér í atkvæði á köflum en kannski býr stundum eitthvað annað þar að baki. Ég ætla ekki að væna þann sem hér stóð og talaði fyrir því að að framlengja þetta um slíkt, ég þekki hann af góðu einu, en stundum finnst mér eins og fólk skipti um ham við það að setjast við stjórnarborð, hvort sem það er í sveitarstjórn eða í ríkisstjórn. Við sem teljum okkur vera velferðarsinna og viljum hugsa um þá sem lakast standa í þessu samfélagi megum ekki, þegar það passar inn í einhvern peningakassa, gleyma þeim sem eiga hvað erfiðast og eiga hvað erfiðast með að standa á eigin fótum. Ef við ætlum að hjálpa einhverjum þá eigum við að hjálpa þessum hópi. Við hin getum kannski bara spjarað okkur og það er allt í lagi að leggja á okkur einhvern aukaskatt til að styðja við hóp sem þennan. Það er bara nauðsynlegt. Ef við ætlum að teljast vera velferðarsamfélag þá megum við ekki láta svona gerast, að ætla að setja, eins og hv. þingmaður nefndi hér, kvóta á mannréttindi.