Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:58]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég minntist hér áðan á mjög athyglisverðan dóm sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Þar kemur mjög skýrt fram í rökstuðningi dómsins að það væri í rauninni ákveðin tregða af hálfu ríkisins til að fjármagna þjónustu sem varð til þess og var notað af sveitarfélaginu sem réttlæting fyrir því að neita manni um þjónustuna, láta hann bíða. Hann beið í meira en tvö ár eftir þessari þjónustu sem hann átti þó skýlausan rétt til. Það er raunar mjög athyglisvert hvað héraðsdómur er afdráttarlaus í sinni niðurstöðu um þau réttindi sem leiða beint af þessum lögum. Það er sérstaklega vísað til bráðabirgðaákvæðisins og þess að þar sé kveðið sérstaklega á um ákveðinn fjölda samninga sem skuli gerðir á hverju ári. Í þessum dómi kemur fram að gagnvart stefnanda, þ.e. manninum sem stefndi sveitarfélaginu, megi það einu gilda hvernig skiptingu kostnaðar sé háttað milli sveitarfélaga og ríkisins og með hvaða hætti uppgjör eigi sér stað, það sé engin heimild í ákvæði 11. gr. laganna eða í öðrum ákvæðum laganna til að binda rétt fatlaðs fólks til þessarar þjónustu því skilyrði að hún komi aðeins til framkvæmda að fjárframlög berist frá ríkissjóði. Mál þessa manns er ekkert einsdæmi, það eru tugir einstaklinga sem hafa verið á biðlista eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð frá því að lögin tóku gildi árið 2018. Margir eru örvæntingarfullir, eins og kona sem við höfum lesið um í fjölmiðlum sem stendur nú frammi fyrir því að missa pláss á hjúkrunarheimili án þess að neitt annað taki við. Hún er búin að bíða eftir NPA árum saman. Hvað finnst hv. þingmanni? Er það ekki bara eðlileg krafa í ljósi þeirra fyrirheita sem gefin voru, þeirra væntinga sem fólki með fötlun voru gefnar hér við setningu laganna 2017, sem tóku gildi í ársbyrjun 2018, að þetta fólk fái afsökunarbeiðni fyrir það hvernig staðið hefur verið að málum?