Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[23:00]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið og spurninguna. Að sjálfsögðu á fólk rétt á miklu meira heldur en afsökunarbeiðni. Það er ákveðið gleðiefni að dómstólar skuli vera svona afdráttarlausir gagnvart því sem augljóst má vera, að fólk á rétt á þeim réttindum sem því eru falin með lögum. Þetta er tiltölulega einfalt mál. Þarna sjáum við að það sem gerist þegar ríki vanfjármagnar þau réttindi sem Alþingi hefur ákveðið að fólk skuli hafa þá verður ríkið einfaldlega skaðabótaskylt. Þar erum við kannski farin að tala um annan vasa í ríkissjóði sem virðist vera botnlaus, ef svo má segja, það eru peningarnir sem á að eyða í að tapa skaðabótamálum sem augljós mega vera frá upphafi, sem varða t.d. það þegar lagaskylda til að veita fólki ákveðna þjónustu er ekki uppfyllt. Maður veltir fyrir sér hvar sparnaðurinn liggur í þessu og hvernig er í rauninni hægt að halda því fram að þessir peningar séu ekki til í ríkissjóði, því að þeir eru til. Það er í rauninni bara verið að fresta greiðslum með því að neita fólki um þau réttindi sem því ber lögum samkvæmt. Fólk á auðvitað að fá miklu meira heldur en bara afsökunarbeiðni, það á að fá þessi réttindi, þessa þjónustu lögum samkvæmt.