Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[23:05]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni mínu í þessu máli, sem mér finnst hafa hlotið hér mjög góða umræðu, þann milliríkjasamning og þann mannréttindasáttmála sem þetta mál byggir að stóru leyti á. Það er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í 19. gr. þess samnings, sem Ísland fullgilti árið 2016 en hefur ekki enn þann dag í dag lögfest þrátt fyrir að hafa undirritað samninginn 2007, stendur, með leyfi forseta:

„Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a. að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi.“ — Þetta hefur okkur ekki tekist að uppfylla að fullu eins og hefur berlega komið í ljós í þessari umræðu hér.

„b. að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,

c. að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.“

Hvers vegna tilgreini ég þetta, virðulegi forseti? Vegna þess að þetta ákvæði, sem liggur persónulegri aðstoð að vissu leyti til grundvallar, er grundvöllurinn að því að fötluðu fólki á auðvitað að vera kleift að lifa sama lífi og allir aðrir sem eru ekki fatlaðir í samfélaginu. Við þurfum bara að taka á okkur ákveðnar skuldbindingar og þar á meðal fjárhagslegar skuldbindingar til að tryggja að svo geti verið. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að fatlað fólk er alltaf látið bíða eftir réttarbótum. Það eru settir kvótar og þeim eru skömmtuð í smáskömmtum mannréttindin sem þau fá hverju sinni. Stundum mætti halda að þau ættu að vera þakklát fyrir smáskammtalækningarnar á þeirra réttindum. En það er ekki svo, virðulegi forseti.

Það sem var svo stórkostlegt og svo merkilegt en samt svo sorglegt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var að með honum er ekki verið að færa fötluðu fólki nein ný réttindi eða annars konar réttindi heldur en fólki sem er ekki með fötlun. Nei, samningurinn þótti nauðsynlegur vegna þess að fatlað fólk fær ekki að njóta mannréttinda til jafns við aðra. Þess vegna þurfti að setja sérstakan samning um að það verði að leyfa fötluðu fólki að njóta mannréttinda til jafns við aðra. Út á það gengur þessi sáttmáli sem við erum búin að fullgilda en ekki lögfesta, að fatlað fólk eigi jafnan rétt til þátttöku í samfélaginu. Þess vegna stingur auðvitað í augun að það sé settur kvóti, að það sé sett þak á það hversu margir fatlaðir einstaklingar megi njóta þeirra réttinda sem er að finna í 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sú grein er auðvitað bara útlistun á því sem til þarf til þess að fatlað fólk, eins og það er orðað í 19. gr., fái að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu, sem er auðvitað sjálfsagður réttur okkar allra. Þess vegna er ekki ásættanlegt að setja kvóta, virðulegi forseti. Það eru sjálfsögð réttindi að fatlað fólk fái að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Mér er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks mjög hugleikinn. Ég hef kannski fjallað um aðeins annan vinkil á þessum samningi alla mína þingsetu heldur en NPA-samningana þótt þeir skipti auðvitað gríðarlega miklu máli, eins og ég hef komið inn á hér, og eru grundvallaratriði, en ég hef verið að fókusera á önnur atriði samningsins sem snúa að rétti fatlaðs fólks á jafnri viðurkenningu fyrir lögum, að fatlað fólk eigi rétt á að vera viðurkennt alls staðar sem persónur að lögum og njóti svokallaðs löghæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins. Ég kem inn á það eftir augnablik, virðulegur forseti. Þar erum við líka mjög langt frá því að vernda réttindi fatlaðs fólks. Ég minnist á þetta vegna þess, virðulegur forseti, að markmiðið er, eins og kemur fram í 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, með leyfi forseta, „að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess“.

Síðan í 3. gr. eru almennar meginreglur sem eru eftirfarandi: Virðing fyrir eðlislægri reisn, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði einstaklinga. Aðrar meginreglur eru bann við mismunun, full og árangursrík þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar, virðing fyrir fjölbreytni og viðurkenningu á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni, jöfn tækifæri, aðgengi, jafnrétti milli karla og kvenna, virðing fyrir stigvaxandi getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína.

Þessi markmið og þessar meginreglur ættu að vera leiðbeinandi í öllu því sem ríkisvaldið tekur sér fyrir hendur þegar kemur að þessum málaflokki. Það eru ákveðnar almennar skuldbindingar sem fylgja þessum samningi líka. Í 4. gr. samningsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a. að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum.“ — Þarna eigum við langt í land, virðulegi forseti, mjög langt í land.

„b. að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin.“

Hér verð ég auðvitað að nefna lögræðislögin sem ég hef barist lengi fyrir því að breyta því þau fela í sér skýra og klára lagalega mismunun gagnvart fólki með fötlun eða geðrænan vanda og hafa gert allt frá setningu þeirra laga. Það er búið að benda okkur á gallana í þessari löggjöf, á mismununina sem þau fela í sér, síðan árið 1994, virðulegur forseti. Samt er ekki búið að laga þetta. Ég var að tala um að fatlað fólk þurfi alltaf að bíða eftir réttarbótum, bíða eftir réttindum sínum, bíða eftir því að því sé ekki mismunað lagalega á grundvelli fötlunar sinnar og þarna er eitt dæmi um hvað þetta tekur rosalega langan tíma. Ég byrjaði að kalla eftir þessu í fyrstu ræðunni sem ég hélt hérna á þingi, að endurskoða lögræðislögin, og við erum kannski núna svona rétt aðeins að fara mögulega af stað með það, eftir öll þessi ár, þessi heilu sex ár sem ég er búin að vera á þessu þingi.

Áfram heldur í samningnum en í c- og d-lið segir að það eigi að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð og aðhafast ekkert það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans. Þetta hefði vel mátt hafa í huga þegar lögregluyfirvöld og íslensk stjórnvöld, þessi ríkisstjórn, horfðu á meðan fötluðum manni var brottvísað á götuna í Grikklandi. Það stenst ekki þessi ákvæði samningsins, virðulegi forseti, hvorki meðferðin á Hussein né það að vísa honum á götuna í Grikklandi. Það er náttúrlega versti glæpur.

Ég held að ég láti upptalningunni ljúka á e-lið 1. mgr. 4. gr., þar sem segir að gera eigi allar viðeigandi ráðstafanir til þess að uppræta mismunun á grundvelli fötlunar af hálfu sérhvers einstaklings, samtaka eða einkaaðila.

Virðulegi forseti. Við gengumst undir þennan samning og fullgiltum hann fyrir sex árum síðan og á svo mörgum sviðum erum við hvergi nærri því að lögfesta hann, hvergi, t.d. í lögræðislögunum. Það er alveg ótrúlegt hvað þau lög brjóta mjög á réttindum fatlaðs fólks og mismuna fötluðu fólki, heimila t.d. frelsissviptingu á grundvelli fötlunar. Það er mjög skýrt ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að það megi alls ekki en þetta gerum við nú samt. Það er talað fyrir þvingaðri lyfjagjöf gagnvart fötluðum einstaklingum og allt án þess að það séu nokkur skilyrði um að viðkomandi sé sjálfum sér eða öðrum hættulegur. Það þarf ekki. Það þarf bara að vera útlit fyrir að þú sért með alvarlegan geðsjúkdóm og þá má svipta þig frelsi þínu og halda þér föngnum inn á geðsjúkrahúsi í þrjár vikur án þess að þú sjáir nokkurn tímann dómara og ef þú óskar eftir því þá færðu bara kannski að sjá hann ef það er ekki bersýnilega tilhæfulaust, það er orðað einhvern veginn svona. Það er læknir sem metur hvort það sé bersýnilega tilhæfulaust að þú fáir að hitta dómara vegna frelsissviptingar eða ekki.

Mannréttindi fatlaðs fólks eru annars flokks á Íslandi. Þau eru langt á eftir mannréttindum fólks sem ekki er með fötlun. Og alltaf skulu þau þurfa að bíða og þakka fyrir allt sem þau fá. Þetta finnst mér ótrúlega óréttlátt, virðulegi forseti, vegna þess að eins og hefur komið fram í þessari umræðu eru mannréttindi ekki þess eðlis að hægt sé að binda þau í kvótasetningu, að það sé hægt að segja: Svona margir fá að njóta sjálfsagðra mannréttinda í ár og svo aðeins fleiri á næsta ári. Þetta á bara ekki að vera þannig, virðulegi forseti. Þess vegna, þrátt fyrir að það sé ágætt og fínt að það séu að koma fleiri samningar, þótt þeir séu töluvert færri en lögin gerðu upprunalega ráð fyrir að yrðu komnir í gagnið í ár, þá er það auðvitað ekki ásættanlegt að réttindi fatlaðs fólks samkvæmt 19. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu kvótasett, að réttur fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu sé bara fyrir suma en ekki alla. Mannréttindi eru algild. Þau eiga ekki að byggjast á heppni, á því hvar þú býrð eða hversu miklar fjárheimildirnar eru þetta árið. Mannréttindi eru algild, þau eiga að gilda fyrir alla án aðgreiningar, rétt eins og fatlað fólk á að fá að lifa sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu.