Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Misnotkun, óskammfeilni og dónaskapur er orðin viðtekin venja dagskrárgerðarmannsins Gísla Marteins og gesta hans í ríkisreknum fjölmiðli. Það er engu eirt og þeir sem verða fyrir niðurlægingu og ruddaskap dagskrárgerðarmannsins hafa engin tækifæri til að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér. Þess vegna tala ég hér.

Nýlega var ráðist á forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barna á Ríkisútvarpinu. Þáttagerðarkona, gestur í þætti Gísla Marteins, ræddi áramótaheit og að hún vildi leika vonda konu á árinu og lýsti því yfir að hún hefði fengið það uppfyllt þegar hún fékk að leika forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barna á RÚV. Hvers eiga börnin og starfsmenn ríkisins að gjalda? Gísla Marteini fannst þetta greinilega algjör snilld, lýsti þessu þannig að þarna væri verið að blanda saman list og pólitík.

Virðulegi forseti. Þarna var ráðist með grófum hætti að starfsheiðri ríkisstarfsmanns sem vinnur embættisstörf sín samkvæmt þeim lögum og reglum sem við setjum um það og gilda. Það er ekki aðeins hér á Ríkisútvarpinu sem uppi veður fólk sem misnotar og mistúlkar. Hér á Alþingi viðurkenna Píratar brot á trúnaðarreglum Alþingis. Annað er útilokað, virðulegi forseti, en að siðanefnd Alþingis taki fyrir trúnaðarbrot þingmanna og snupri þá fyrir gróf brot á trúnaðarreglum Alþingis. Við erum þjóðkjörin og getum ekki orðið uppvís að því að brjóta trúnað gagnvart gestum okkar og samstarfsfólki, gagnvart þjóðinni. Við erum þjóðkjörin og getum ekki orðið uppvís að því að brjóta trúnað gagnvart þessu fólki.

Virðulegur forseti. Þolinmæði í samfélaginu er orðin lítil fyrir því að dagskrárgerðarfólk á ríkisfjölmiðli og þingmenn kjörnir af þjóðinni misfari með stöðu sína og vald á jafn grófan hátt og hér hefur gerst. Það er krafa okkar að Ríkisútvarpið rétti pólitíska slagsíðu og fari að þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda.