Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

Störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Heilbrigðisstofnun Suðurlands rekur öfluga starfsemi um allt Suðurland og heldur úti níu starfsstöðvum víðs vegar um Suðurlandið. Kjarnastarfsemi stofnunarinnar er á Selfossi þar sem sjúkrahúsið er staðsett. Stofnunin er m.a. með starfsemi í Hveragerði sem er í um 15 mínútna fjarlægð frá Selfossi. Í Hveragerði búa nú um 3.000 manns. Það þykir eðlilegt að slík starfsstöð sé til staðar þrátt fyrir að ekki sé um langan veg að fara á milli Hveragerðis og Selfoss. Sveitarfélagið Suðurnesjabær, sem varð til við sameiningu Sandgerðis og Garðs árið 2018, hýsir nú tæplega 4.000 íbúa. Þar er hins vegar ekki um neina heilsugæslu að ræða og þurfa því íbúar að leita til annarra sveitarfélaga eftir læknisþjónustu. Gera má ráð fyrir að það taki u.þ.b. 12 mínútur að aka á milli Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar sem er rétt tæplega sá tími sem það tekur að aka á milli Hveragerðis og Selfoss. Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur ítrekað óskað eftir lagfæringu á þessu ófremdarástandi án þess að á það hafi verið hlustað. Ríkið hefur gert Heilbrigðisstofnun Suðurlands kleift að reka sínar starfsstöðvar af miklum myndarskap en einhverra hluta vegna hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ekki séð sér fært að gera slíkt hið sama. Það eykur auðvitað álagið á stofnunina í Reykjanesbæ sem á, eins og allir vita, í verulegu basli með að sinna því sem henni ber. Íbúar Suðurnesjabæjar eiga þar fyrir utan rétt á að fá heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.

Virðulegur forseti. Við hljótum að gera þá kröfu að þetta verði lagfært.