Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í dag fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Um frumvarpið hefur verið fjallað á allmörgum fundum í nefndinni og fyrir nefndina komu að sjálfsögðu helstu umsagnaraðilar, ráðherrar og starfsmenn ráðuneyta sem gerðu grein fyrir breytingum á fjárhagsramma málefnasviða sem undir þá heyra. Auk umsagna bárust nefndinni fjöldi annarra minnisblaða, erindi og óskir um fjárstuðning, hreinar fjárbeiðnir eða beiðnir um viðbótarframlög. Nefndin fylgdi því verklagi að áframsenda slíkar beiðnir til hlutaðeigandi ráðherra hverju sinni með vísan til 20. og 21. gr. laga um opinber fjármál.

Í takti við þróun síðustu ára kallaði nefndin í ríkum mæli eftir skýringum og rökstuðningi ráðuneyta vegna einstakra mála og málaflokka og ábendinga sem fram komu í umsögnum og á fundum með umsagnaraðilum.

Frumvarp til fjárlaga 2023 byggir á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í sumar en ný spá var birt 11. nóvember og í kjölfarið hafa tekjustofnar og útgjöld verið endurmetin. Sú uppfærsla er hluti þeirra breytinga sem við ræðum hérna í dag. Breytingartillögur þær sem lagðar eru fram við þessa umræðu nema ríflega 23 milljörðum við tekjuáætlun frumvarpsins og tæplega 53 milljörðum við gjaldaheimildir málefnasviða og málaflokka, hvort tveggja til hækkunar, bæði tekjur og gjöld. Heildarafkoma fjárlaga verður þá neikvæð um 118.195 millj. kr. sem rúmast ágætlega innan þess ramma sem fjármálastefnan leyfir. Rammasett útgjöld hækka um 48,5 milljarða eða 4,8%, framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækka um 9,7 milljarða. Hækkunin kemur annars vegar til vegna lýðfræðilegra breytinga, við erum jú að eldast og okkur fjölgar og þá ellilífeyrisþegum, og hins vegar vegna umtalsverðrar hækkunar á frítekjumarki atvinnutekna öryrkja. Þá hækka sömuleiðis framlög til Fæðingarorlofssjóðs um tæpa 3 milljarða og til húsnæðisbóta um 1,5 milljarða. Framlög til heilbrigðismála hækka um 17,4 milljarða og þar vegur þyngst tæplega 7 milljarða kr. raunhækkun til heilbrigðisstofnana og Sjúkratrygginga til að koma til móts við aukna eftirspurn og öldrun þjóðarinnar. Framlög til lyfjamála eru stóraukin og nemur hækkunin um 5 milljörðum og þá fara ríflega 1,2 milljarðar til reksturs nýrra hjúkrunarrýma. Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækka að raungildi um 6 milljarða eða rúm 20% sem er hlutfallslega þriðja mesta hækkun allra málefnasviða. Þar munar mestu um 4 milljarða kr. aukningu á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og 1,3 milljarða hækkunar á styrkjum til nýsköpunarfyrirtækja. Framlög til umhverfis- og orkumála hækka um tæpa 6 milljarða eða 18%. Þannig hefur tekist að fjármagna mikilvægar aðgerðir í loftslagsmálum sem varða m.a. skuldbindingar í þeim efnum. Þá hækka útgjöld til Orkusjóðs um 1,4 milljarða vegna verkefna sem styðja við orkuskipti.

Jákvæð þróun hefur verið í auknum fjárfestingum af hálfu hins opinbera á undanförnum árum. Sú þróun á að hluta til rætur sínar að rekja til heimsfaraldurs Covid-19. Þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldursins gæti í mun minna mæli en áður á daglegt líf okkar ná aðgerðir vegna Covid yfir lengra tímabil, til að mynda fjárfestingarátak sem ákveðið var á fyrsta ári faraldursins og stendur enn yfir sem og aukinn stuðningur við rannsóknir og nýsköpunar- og þróunarstarf. Gert er ráð fyrir því að viðhalda fjárfestingarstigi þannig að arðbærar fjárfestingar verði áfram framarlega í forgangsröðun í fjárlögum. Helstu fjárfestingarflokkar hafa vaxið allt frá árinu 2017. Framlög til uppbyggingar hjúkrunarheimila og til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina haldast því næst sem óbreytt þrátt fyrir að áhrifa heimsfaraldursins gæti ekki lengur. Í gildandi fjármálaáætlun var tekin ákvörðun um að gera stóran hluta þess stuðnings, eða um 75%, varanlegan frá og með árinu 2024. Þá er rétt að nefna að vegna nemendafjölgunar bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi voru framlög til beggja skólastiga stóraukin í faraldrinum. Einungis hluti aukningarinnar hefur fallið niður í ljósi þess að skólaganga spannar yfir nokkurra ára tímabil en við þurfum að fylgjast vel með þessu og halda takti í framlögum. Ég vil nefna í því sambandi að fjárlaganefnd mun óska eftir kynningu á reiknilíkönum, annað er tilbúið í framhaldsskólanum en er til endurskoðunar vegna háskóla. Ég tel mikilvægt að við fáum kynningu á því helst núna í janúar.

Ljóst er að efnahagsforsendur hafa breyst nokkuð frá síðustu fjárlögum í ljósi fjarandi áhrifa faraldursins og breyttra áherslna sökum þess. Samkvæmt nýjustu hagspám eru horfur á að hagvöxtur í ár sé um 6%. Á komandi ári er gert ráð fyrir því að um hægist og gera forsendur frumvarpsins ráð fyrir því að hagvöxtur verði tæplega 3% á næsta ári. Útlit er fyrir að ferðaþjónustan og fjöldi ferðamanna sé nú að ná fyrri styrk. Þetta hefur áframhaldandi jákvæð áhrif á útflutning sem og atvinnuhorfur en þær eru með ágætasta móti og áætlað að atvinnuleysi verði um 4%. Verðbólgan setur strik í reikninginn en hún fór hæst í tæp 10% í sumar. Samkvæmt nýjustu mælingum nam 12 mánaða hækkun verðbólgu um 9,3% og útlit er fyrir að hún hafi náð hámarki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að verðbólga á næsta ári fari lækkandi og verði um 4,9%. Seðlabanki Íslands hefur hækkað meginvexti sem eru nú 6% eftir síðustu vaxtabreytingar bankans til þess að mæta verðbólgunni. Helstu hagspár gera því ráð fyrir að samanlagt verði umfang hagkerfisins á næsta ári af svipaðri stærðargráðu og reiknað var með í sumarspá Hagstofunnar þrátt fyrir lækkun á hagvaxtarspá fyrir næsta ár. Þá gefa nýjustu spár til kynna að tekjur ríkissjóðs gætu orðið nokkuð hærri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu, ekki síst kannski vegna aukinnar einkaneyslu og þar með auknum tekjum vegna virðisaukaskatts.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga áhrif af samspili þjóða og fjármálamarkaða á almenna hagkerfið og alþjóðahagkerfið. Samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er staða efnahagsmála nokkuð misjöfn á Norðurlöndunum en í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð gera spár ráð fyrir minna en 1% hagvexti. Í því samhengi er staðan á Íslandi og í Noregi talsvert betri. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að hagvöxtur verði óverulegur víða um heim á næsta ári og jafnvel samdráttur. Það er ljóst að margt hefur breyst á alþjóðasviðinu síðustu misseri, heimsfaraldurinn spilaði þar stóran þátt síðustu ár og nú hefur ólögmæt innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu umtalsverð áhrif, bæði vegna hækkandi hrávöruverðs eins og við vitum, en sömuleiðis vegna hærri orkukostnaðar víða í Evrópu en Rússar hafa dregið úr útflutningi á gasi um 20% frá síðasta ári og verð á gasi fjórfaldast í álfunni. Víða í Evrópu er verðbólgan há og hafa seðlabankar víða um álfuna brugðist við með aðhaldssamri peningastefnu og hækkun meginvaxta. Sömuleiðis hefur bandaríski Seðlabankinn hækkað vexti. Þessum breytingum fylgir óhjákvæmilega talsverð óvissa fyrir alþjóðahagkerfið og fjármálakerfi einstakra landa og á heimilin. Sömuleiðis sýna spár að það hægir á hagvexti í Kína, en áhrif ríkisins eru slík að þegar hægir á hagvexti þar hefur það áhrif á heimsviðskipti og umsvif í alþjóðahagkerfinu.

Ég ætla þá að víkja að áherslumálum og ábendingum frá meiri hluta fjárlaganefndar. Frá því að breytingar voru gerðar á lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, sem samþykktar voru haustið 2017, hefur í umfjöllun fjárlaganefndar verið aukin áhersla á málefnasvið og málaflokka og þess vegna viljum við vekja athygli á nokkrum áherslumálum í tengslum við tillögur meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. frumvarpsins. Fyrir umræddar breytingar voru fjárveitingar til einstakra liða fjárlaga í kastljósinu, m.a. í umræðum á Alþingi. Það er mat nefndarinnar að markvissara sé að ræða stefnumörkun og forgangsröðun líkt og nú er gert. Þetta leiðir af sér að ráðherrar einstakra málaflokka svara fyrir fjármögnun einstakra liða og stofnana eins og ég sagði áðan. Nefndin vill koma þeim almennu sjónarmiðum á framfæri að mikilvægt sé að stefnumörkun sé gagnsæ og ákvarðanir sem og breytingar þingsins markvissar. Nefndin vill koma því til ríkisstjórnar að skerpa á áherslum sínum, sér í lagi þeim sem hafa bein áhrif á starfsemi ríkisstofnana og verkefni á þeirra vegum sem flutt hafa verið út á land.

Virðulegi forseti. Mig langar núna að tala aðeins um grunnrannsóknir. Eins og ég sagði áðan þá hafa á undanförnum árum fjármunir til nýsköpunar, rannsókna og þróunar verið auknir talsvert eða í kringum 5 milljarða kr. á ári. Þetta er vel en við í meiri hlutanum viljum þó halda því til haga að miklum vexti í málaflokknum fylgja óhjákvæmilega vaxtarverki sem ber að leggja mat á. Fjárlaganefnd stefnir því að því að meta árangur og skilvirkni af auknum fjármunum til málaflokksins á komandi ári. Við höfum núna í yfirstandandi vinnu rætt um grunnrannsóknir, svo sem á sviði jarðvísinda og veðurs, um rannsóknir á ferðaþjónustu, hafrannsóknir og langtímarannsóknir á sviði landnýtingar, jarðræktar og plöntukynbóta. Þetta á sömuleiðis við um langtímarannsóknir og vöktun á samfélagslega mikilvægum þáttum sem varða bæði atvinnu og umhverfi, svo sem rannsóknir á hafi. Við í meiri hlutanum teljum mikilvægt að til komi skýr stefnumörkun á sviði grunnrannsókna og það þurfi líka að skýra skilin á milli þeirra. Vegna þessa þá kallaði nefndin m.a. eftir slíkum upplýsingum innan úr ráðuneytum vegna kostnaðar við grunnrannsóknir. Það er ljóst að skýr viðmið vantar um hvernig hægt væri að flokka rannsóknir og vöktun með tilliti til þess umhverfis sem rannsóknir búa við. Því setjum við fram beiðni til ráðuneyta um að taka saman fyrir gerð fjármálaáætlunar, sem við komum til með að fjalla um nú í vor, og koma með fyrstu skref í slíkri flokkun og fyrirkomulag fjármögnunar til lengri tíma. Í dag eru grunnrannsóknir að stærstum hluta fjármagnaðar með rekstrarfé stofnana sem eru á fjárlögum.

Þá eru það félagsmálin. Þar er umtalsverð aukning til málaflokksins og fagnar meiri hluti nefndarinnar þeim skrefum sem verið er að stíga í átt að endurskoðun örorkulífeyriskerfisins, í málefnum aldraðra og öðrum veigamiklum þáttum í velferðarþjónustu. Á þetta m.a. við um tvöföldun frítekjumarks atvinnutekna örorkulífeyrisþega og þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Tillögurnar um að hækka frítekjumarkið úr 109.600 kr. í 200.000 kr. eru mikilvægar. Markmiðið er að auka atvinnuþátttöku öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Þessi breyting eykur til muna möguleika til atvinnuþátttöku sem í senn vinnur gegn félagslegri einangrun og getur aukið almenna velferð fólks. Ráðgert er að hækkunin nemi um 1.000 milljónum ríflega og þá fjölgar samningum um notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með 375 millj. kr. viðbótarframlögum hér á milli umræðna. Það er ráðgert að með ráðstöfuninni fjölgi samningum um 50% og verða framlög úr ríkissjóði til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar því 1.083 milljónir. Í málaflokknum um örorku og málefni fatlaðs fólks eru gerðar breytingartillögur sem nema samtals 1,5 milljörðum. Í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er tillaga um hækkun framlags til endurhæfingarþjónustu um 130 milljónir. Það er í rauninni verið að draga aðhaldið til baka. Í því samhengi bendir nefndin á mikilvægt hlutverk einstakra stofnana. Í vinnu nefndarinnar var rætt um mikilvægi starfsins á Reykjalundi. Þangað leita einstaklingar til að öðlast á ný færni til að takast á við líf eftir veikindi eða önnur áföll. Það eykur lífsgæði þeirra einstaklinga og svo er það þjóðhagslega hagkvæmt og mikilvægt að fólk komist aftur út á vinnumarkaðinn. Eðli starfsemi Reykjalundar er jöfnum höndum að byggja upp færni og hæfni til að takast á við vinnu eða aðra virkni í samfélaginu. Þá skapaðist umræða um skörun á milli málaflokka og mismunandi endurhæfingarúrræði, svo sem starfsendurhæfingu. Skýra þarf hvort slík endurhæfing falli undir félagsleg úrræði og/eða heilbrigðismál. Beinir nefndin því til hlutaðeigandi ráðherra að skera úr um það. Nefndin lítur svo á að þangað til annað er ákveðið tryggi þetta framlag að Sjúkratryggingar Íslands geti gert samninga við Reykjalund um framhald á endurhæfingarþjónustu.

Virðulegi forseti. Trygg þjónusta til verndar heilsu fólks eru sameiginlegir hagsmunir samfélagsins alls og grunnur að velsæld þjóðarinnar. Heilbrigðismálin eru einn stærsti útgjaldaliður ríkisins og hann sætir ekki aðhaldskröfu. Meiri hluti fjárlaganefndar fagnar sérstaklega auknum framlögum til heilbrigðismála. Í kjölfar heimsfaraldursins hefur mikil þjónustuþörf safnast upp eftir heilbrigðisþjónustu sem endurspeglast m.a. í biðlistum eftir margs konar heilbrigðisþjónustu. Þótt áhrif Covid-19 á samfélagið dvíni ört og opinberum sóttvarnaaðgerðum hafi verið aflétt er ljóst að heilbrigðiskerfið er enn að glíma við faraldurinn og afleidd áhrif hans. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála og heilbrigðisstefnu til 2030 um jafnt aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu leggur meiri hlutinn til aukið fjármagn til heilbrigðismála. Viðbótin milli umræðna eru 12,2 milljarðar og undirstrikar það áherslu stjórnvalda á að standa vörð um heilbrigðiskerfið. Þar ber helst að nefna 2,3 milljarða til styrkingar á rekstrargrunni Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri. Þá verður áfram haldið að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað innan heilbrigðiskerfisins með 2 milljarða viðbótarframlagi. Því til viðbótar verður farið í sérstakt verkefni til að vinna niður biðlista eftir ýmsum aðgerðum, svo sem liðskiptaaðgerðum. Viðbótarfjármagn er sömuleiðis veitt til að efla bæði endurhæfingarúrræði og heimahjúkrun í takt við stjórnarsáttmála og heilbrigðisstefnu til 2030, eins og áður segir. Þá er aukin áhersla á betri geðheilbrigðisþjónustu og áframhaldandi lægri greiðsluþátttöku sjúklinga. Svo vil ég líka minnast á það að við erum að styðja við uppbyggingu Grensásdeildarinnar.

Meiri hluti fjárlaganefndar telur að mikilvægt sé að fyrir liggi ítarlegar greiningar og upplýsingar um hvernig fjármunum er varið. Meðal annars vill nefndin árétta mikilvægi þess að tengja fjárveitingar við afköst heilbrigðiskerfisins eins og þau eru mæld með svokölluðu DRG-verkbókhaldi. Í vinnu nefndarinnar voru ýmsar tölur vegna starfsemi Landspítalans settar í samhengi við íbúaþróun árin 2016–2019 og sú skoðun leiddi í ljós að á tímabilinu fjölgaði ársverkum á spítalanum umfram afköst spítalans og er því mikilvægt að kanna þetta ítarlega.

Þá er áfram aukin framlög til kaupa á leyfisskyldum lyfjum vegna fjölgunar þjóðarinnar og breyttrar aldurssamsetningar hennar. Hafa kringumstæður, m.a. faraldurinn og stríðsátök í Úkraínu, leitt til verðhækkana eins og við þekkjum. Aukin framlög eru liður í að mæta þeirri þróun og tryggja bestu fáanlegu lyf og meðferðir. Aukningin á milli umræðna nemur um 2 milljörðum kr.

Virðulegi forseti. Í meðförum nefndarinnar var líka rætt um störf án staðsetningar og mikilvægi þess að fjölga slíkum störfum enda er það á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Það er mat meiri hlutans að hið opinbera þurfi að gera betur í þeim efnum en hlutfallslegir eru of fá störf á vegum hins opinbera úti í landsbyggðunum að okkar mati. Fjölgun starfa úti um allt land hefur líka mikil jákvæð áhrif, ekki síst innan hlutaðeigandi sveitarfélaga með tilliti til fjölbreyttari starfa en víða er í hinum dreifðu byggðum atvinnulíf með einhæfasta móti. Í umsögnum fjölda sveitarfélaga er vakin athygli á að jafnt og þétt fækki störfum á vegum ríkisins í landsbyggðunum. Opnun útibúa eða starfsstöðva opinberra stofnana hefur reynst ágæt leið við að fjölga störfum í landsbyggðunum en því getur fylgt viðbótarkostnaður fyrir viðkomandi stofnun. Mikilvægt er að hafa í huga að störf án staðsetningar flytjast oft búferlum með starfsfólki. Það mætti alveg velta því fyrir sér hvort við ættum að tala um störf með staðsetningu. Það er því viðvarandi verkefni að gæta að störfum í landsbyggðunum og tryggja að störf án staðsetningar séu unnin úti um allt land. Meiri hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að sýna pólitískt aðhald í þessum efnum og telur brýnt að aðhald ríkisstofnana komi ekki niður á störfum í hinum dreifðu byggðum og leggur því til að gerð verði greining á fjölda opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til staðsetningar þeirra, þróunar starfsmannafjölda og stöðugilda síðastliðinn fimm ár og þess fjölda starfa sem flust hefur aftur til höfuðborgarsvæðisins vegna búferlaflutninga starfsfólks.

Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um löggæslu og önnur öryggismál undanfarnar vikur og ekki að ósekju. Fjárlaganefnd hefur ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu og báru löggæsla og netöryggismál á góma nefndarinnar og fengum við þess vegna dómsmálaráðuneytið sérstaklega á fund okkar milli umræðna. Undanfarin ár hafa verið byggðir upp mikilvægir fjarskiptainnviðir um land allt samkvæmt áætlun stjórnvalda og nýr gagnasæstrengur verið lagður til Írlands. Það er mikilvægur liður í öryggi þjóðarinnar sem og uppbyggingu hátæknigreina að auka traust almennings á upplýsingatækni og netöryggi. Þá er netöryggi stór þáttur í þjóðaröryggisstefnu og því er lagt til hér að settar verði 100 milljónir til netöryggismála til að fylgja ofangreindum áherslum eftir. Eins og við vitum þá fjölgar netglæpum stöðugt. Umtalsvert viðbótarfjármagn fer til lögreglunnar til að mæta auknum og fjölbreyttum áskorunum. Meiri hluti fjárlaganefndar telur erindið brýnt og mikilvægt að hafa öryggismál í hinu stóra samhengi í lagi en álag á löggæslu hefur aukist með auknum ferðamannastraumi, umferðarslysum og öðrum óhöppum sem og skipulagðri glæpastarfsemi. Í núgildandi fjárlögum var lögð áhersla á að styrkja löggæslu úti um land allt en verkefni lögreglu höfðu aukist í heimsfaraldri, m.a. vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og fjölgunar ferðamanna. Áætlað er að fjölga sértækum rannsóknarhópum til að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi og er hér lögð til 500 millj. kr. fjárveiting í þann lið og 900 millj. kr. til að efla almenna löggæslu. Þá vísum við í nefndaráliti meiri hlutans til þess að almannavarnir hafa verið sleitulaust að störfum síðan í óveðrinu 2019 og þau hafa líka tekist á við heimsfaraldur, jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og fleira sem nauðsynlegt hefur reynst að bregðast við. Þetta hafa ekki verið alveg tíðindalaus ár. Einnig telur meiri hlutinn mikilvægt að árétta það að auka öryggi með bættum rannsóknum í kynferðisbrotamálum, auknum málshraða og öflugri löggæslu. Við brugðumst við þessu í fjárlögum ársins 2022 með 200 millj. kr. hækkun til lögreglunnar til að efla rannsóknir og saksókn kynferðisbrota og efla forvarnir og þjónustu við þolendur kynferðisbrota í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála. Því beinum við því eindregið til ríkisstjórnarinnar að taka aðhaldskröfu á liðnum um almanna- og réttaröryggi til skoðunar við gerð næstu fjármálaáætlunar. Aðhaldskrafan getur ekki þýtt neitt annað en að það þurfi að fækka stöðugildum í málaflokki sem býr við aukin verkefni og auknar áskoranir þar sem stærsti pósturinn er laun. Til að bregðast við þessu leggur meiri hluti fjárlaganefndar til aukna fjárheimild upp á 200 millj. kr. til að draga úr aðhaldskröfu á lögreglu.

Virðulegi forseti. Tvær megintillögur komu fram hjá meiri hluta vegna orkuskipta og raforkumála, sú fyrri um átaksverkefni vegna hreinorkubíla. Í álitinu segir m.a. að orkuskipti í samgöngum hafi farið hratt af stað og að mikil eftirspurn hafi verið eftir rafmagnsbílum. Það er vel að yfirgnæfandi meiri hluti bíla sem seldir eru hér á landi sé slík ökutæki. Þetta kemur m.a. til vegna innkaupa bílaleigufyrirtækja en áætlaður fjöldi þeirra er um 20.000 ökutæki. Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að það sé álit okkar að skapa áfram rétta hvata og forsendur til að fjölga slíkum bílum í þágu orkuskipta og alþjóðlegra skuldbindinga Íslands vegna samdráttar í losun kolefnis. Þá er mikilvægt að halda því til haga að stuðningur vegna uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hefur vegið þungt í þessum breytingum og fagnar nefndin því að net hleðslustöðva á landsvísu sé tekið að þéttast. En betur má ef duga skal og leggur því nefndin áherslu á að viðhalda réttum hvötum til orkuskipta í samgöngum og leggja meiri stuðning við þróun og sókn til hreinorku meðal flutningabíla og atvinnutækja. Eru því lagðar til 400 millj. kr. til Orkusjóðs í þeim tilgangi.

Þá leggur nefndin áherslu á bætt afhendingaröryggi raforku. Síðastliðinn vetur kom til skerðinga á afhendingu skerðanlegri orku frá Landsvirkjun. Einna þyngst bitnaði þetta á rafkyntum fjarvarmaveitum sem víða eru reknar til húshitunar. Bæði hlaust verulegur aukakostnaður af því þar sem gjald fyrir forgangsorku er mun hærra, kerfið gat ekki annað eftirspurn og grípa þurfti til varaafls með olíubrennslu. Vegna umræddrar skerðingar jókst olíunotkun m.a. á Vestfjörðum umtalsvert en um mitt ár var notkunin komin í 2,1 millj. lítra samanborið við 210 þús. lítra árið 2021. Það er því brýnt öryggismál að tryggja afhendingu rafmagns. Þar þurfum við sérstaklega að hafa í huga svæði bæði á Austurlandi og Vestfjörðum þar sem uppbygging innviða vegna flutnings raforku hefur orðið eftir. Nefndin leggur á það áherslu að leitað verði leiða til að bæta þetta fyrirkomulag og við vísum í nefndarálitinu okkar til skýrslu á vegum Stjórnarráðsins um raforkuframleiðslu og aðra orkuframleiðslu, m.a. á Vestfjörðum. Þar kemur fram að aukinn þunga þurfi í það verkefni að leita að vatni til húshitunar. Við í meiri hlutanum tökum undir þau sjónarmið sem koma fram í skýrslunni um orkumál á Vestfjörðum og leggjum því til í breytingartillögum okkar 150 millj. kr. til jarðhitaleitarátaks. Sömuleiðis beinum við því til hlutaðeigandi ráðherra fyrir næstu fjármálaáætlun að um frekari stefnumörkun verði að ræða vegna þessa. Þá ítrekum við það við ráðherra að það sé heimilt að verja allt að 5% af niðurgreiðslu fjármagns til húshitunar til jarðhitaleitar.

Virðulegi forseti. Í kjölfar þeirrar vinnu sem nefndin lagði í er varðar umsagnir og svör ráðuneyta við spurningum nefndarinnar eru gerðar margar breytingartillögur við frumvarpið. Breytingar á tekjuhlið eru allar byggðar á tillögum ríkisstjórnarinnar. Frá því að frumvarpið var lagt fram hafa bæst við tvenns konar ný áform, annars vegar afnám fjöldatakmarkana fyrir rafmagnsbíla sem hljóta virðisaukaskattsívilnun sem lækkar tekjur um 3,8 milljarða og hins vegar breytingar á gjaldskrá Úrvinnslusjóðs sem hækkar tekjur um 2 milljarða. Í heild hækka tekjur um 23,7 milljarða, eins og ég sagði í upphafi, frá því sem ráðgert var í frumvarpinu. Þar munar mest um 12,6 milljarða kr. hærri tekjur af virðisaukaskatti vegna aukinnar einkaneyslu og jákvæðra áhrifa af ferðaþjónustu. Þá skilar hærri tekjuskattur vegna ársins í ár 8 milljörðum kr. til viðbótar. Það er sérstakt fagnaðarefni að þessar tekjur aukist og sýnir hraðari viðspyrnu atvinnulífsins en áður hafði verið áætlað. Þá er vert að halda því á lofti að áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga lækka um 2,8 milljarða, annars vegar vegna aukinnar verðbólgu á yfirstandandi ári sem hefur þau áhrif að persónuafsláttur og þrepa- og skattleysismörk hækka umfram áætlanir og hins vegar vegna hækkunar á hlutfalli útsvars sem eykur tekjur sveitarfélaga um rúma 5 milljarða kr. Sú aukning er liður í því að mæta auknum kostnaði við málefni fatlaðs fólks. Þá er ráðgert að sektir vegna óskoðaðra ökutækja lækki um 1,7 milljarð vegna reynslu yfirstandandi árs.

Virðulegi forseti. Mig langar núna að fara yfir einstakar tillögur sem gerðar eru, stórar sem smáar, áður en ég lýk máli mínu. Undir lið 29, um fjölskyldumál, eru gerðar breytingartillögur sem nema tæplega 1.400 millj.kr. þar sem er veitt tímabundið framlag til eins árs vegna samninga við sveitarfélög um samræmda móttöku flóttamanna. Einnig er gerð 338 millj. kr. tillaga um sérstök úrræði í tengslum við móttöku flóttabarna.

Mig langar líka til að nefna að undir liðnum um nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar eru lagðar til 320 millj. kr. vegna máltækniverkefnisins sem ég tel gríðarlega mikilvægt að við höldum vel utan um.

Meiri hluti nefndarinnar var sammála því að leggja til í sóknaráætlanir 120 millj. kr. og eins í starfsemi atvinnuráðgjafar á landsbyggðinni, 40 millj. kr. Við teljum að það sé mikilvægt, ekki síst í ljósi þess að eftir að Nýsköpunarmiðstöð var lögð niður þá hefur aukinn þungi færst til atvinnuráðgjafa hjá landshlutasamtökum sveitarfélaga.

Eins og ég sagði áðan þá hefur verið veitt talsvert aukið fé til löggæslunnar en líka til landhelgismála þar sem Gæslan hefur orðið fyrir talsverðum kostnaði, ekki síst vegna mikilla olíukaupa sem hún þarf að standa undir. En síðan er gert ráð fyrir viðbótarframlagi til reksturs á varðskipinu Freyju þar sem það er talsvert dýrara og stærra en fyrra skip.

Við leggjum líka til, eins og við gerðum núna í fjáraukanum, aukna fjármuni til að mæta veikleikum í starfsemi fangelsa sem ég tel afar brýnt og hefur komið fram að fangelsiskerfið hefur átt við alvarlegan rekstrarvanda að stríða um talsvert skeið og við höfum kannski bæði fresta viðhaldi, lokað rýmum og annað slíkt í staðinn fyrir að nýta það að fullu þannig að þetta kemur til með að hjálpa til við það.

Hér er einnig gerð tillaga um framlag til að halda áfram starfi Persónuverndar á Húsavík. Þetta er kannski eitt af því sem við viljum að ráðuneytin taki til sín þegar þau eru að flytja störf eða búa til störf í landsbyggðunum, að þá eigi þau að fjármagna þau. Við eigum ekki að þurfa að grípa slíkt heldur eigi ráðuneytin að gera það. Hið sama er í rauninni hægt að segja um sýslumenn. Þar leggjum við til framlag til þess að styrkja starfsstöð embættisins á Þórshöfn sem að okkar mati ætti líka í rauninni að vera, eins og ég var að rekja hér áðan, undir sama hattinn sett.

Lagðir eru til fjármunir til að tryggja ferjurekstur um Breiðafjörð þar sem rekstraraðili ferjunnar Baldurs er að hætta siglingum og við því þarf að bregðast. Það er rakið í nefndarálitinu hvernig það verður gert.

Eins og ég sagði áðan erum við að fjármagna ný fjarskiptalög með því að leggja til 100 millj. kr. framlag, ekki síst vegna kostnaðar við innleiðingu eftirlits með skipulagi net- og upplýsingaöryggis og áhættustýringarumgjörð í samræmi við 78. og 87. gr. laganna.

Síðan langar mig að segja frá því líka, af því að við höfum rætt talsvert um hamfarirnar á Austurlandi, að hér er áframhaldandi stuðningur við þá uppbyggingu. Þá er líka gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til að mæta kostnaði vegna tjóns af völdum skriðufalla í Útkinn sem urðu í fyrra.

Eitt og annað er líka verið að gera, m.a. er hér 150 millj. kr. varanlegt framlag til að halda starfsemi og þjónustu Flugþróunarsjóðs við, ekki síst í ljósi þess að við teljum að það sé mikilvægt að koma á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og á Egilsstöðum og dreifa þannig ferðamönnum um landið.

Það kemur fram í málaflokki 17, sem er náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla, að ráðherra hefur kynnt stefnuna Land og líf, sem er heildstæð stefna um landgræðslu og skógrækt þar sem markmiðið er að auka landgræðslu og skógrækt í þágu loftslagsmála og endurheimta vistkerfi, bæta landnýtingu og auðvitað rannsóknir á áhrifum aðgerða á líffræðilega fjölbreytni og áhættumat fyrir notkun á framandi tegundum í skógrækt. Eru lagðar til auknar fjárveitingar til verkefnisins, 154 millj. kr.

Náttúrustofurnar, sem eru einmitt dæmi um störf í hinum dreifðu byggðum, styrkjum við með 6 millj. kr. framlagi til hverrar og einnar sem er sambærilegt og á yfirstandandi ári.

Hér er líka lagt til í umhverfismálunum, samkvæmt beiðni umhverfis- og samgöngunefndar, að klára seinni hluta frumrannsóknar sem kveðið er á um í skýrslu ráðherra um hreinsun Heiðarfjalls og við beinum því til ráðuneytisins og ráðherra að sjá til þess að það verkefni geti klárast. Við leggjum hér til hluta af því framlagi sem nefndin bað um og treystum því að ráðuneytið komi því alla leið.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri fær líka tímabundið framlag sem og Hollvinafélag Kvíabekkjarkirkju. María Júlía, sem er partur af skipaarfinum okkar, fær hér stuðning. Tækniminjasafn Austurlands sem lenti, eins og við þekkjum, afar illa í aurskriðunum, fær framlag, sem og Safnasafnið og Þjóðlagasetrið. Sveitarfélagið Norðurþing fær framlag vegna heimskautsgerðis á Raufarhöfn. Fornminjasjóður er styrktur. Í samræmi við tillögur starfshóps vegna hamfara er lagt til að veitt verði 190 millj. kr. viðbótarframlag til Húsafriðunarsjóðs til að mæta kostnaði við flutning húsanna á Seyðisfirði, sem ég tel vera afar mikilvægt.

RIFF fær hér framlag, Pálshús, Flugsafn Íslands, Skaftfell, Skpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði, menningarhúsið í Sigurhæðum, LungA, Hraun í Öxnadal, Leikfélag Reykjavíkur, Menningarfélag Akureyrar sem og Skógarmenn KFUM sem hafa verið að byggja nýjan matskála í Vatnaskógi og sinna þar miklu sjálfboðaliðastarfi sem við styrktum á yfirstandandi ári og teljum fulla ástæðu til að styðja við bakið á þeim áfram. Við styðjum líka við Ungmennafélag Íslands og teljum að það þurfi m.a. að styðja við uppbyggingu landsmótsstaða.

Menntanet Suðurnesja, sem var stofnað árið 2021 og er ætlað að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur, fékk tímabundin framlög á síðasta ári og eins á þessu ári og við teljum að það sé ástæða til að styðja við það, enda þekkjum við ástandið á Suðurnesjum og það er mikilvægt að styðja og styrkja þessa starfsemi. Sama má segja um Fisktækniskóla Íslands. Þar er í boði nám sem að mínu mati skiptir miklu máli. Þetta er nemendahópur sem kannski sækir ekki í hefðbundið skólakerfi en finnur fjölina sína þarna og ég þekki aðeins til og tel að þarna sé fjármunum afskaplega vel varið. Við setjum tímabundið framlag líka til Fjölsmiðjunnar á Akureyri til að mæta þeim mun sem er á milli slíkra úrræða á milli landshluta og við hverjum ráðherra til að fara betur yfir það. Húnaþing vestra fær hér framlag vegna dreifnámsdeildar á Hvammstanga. Framhaldsskólinn á Laugum fær framlag til að gera umhverfi tjarnar við skólann öruggt sem við teljum, miðað við þau gögn sem við höfum í höndunum, vera mikilvægt. Háskólinn á Akureyri fær 25 millj. kr. tímabundið framlag þannig að efla megi áfram svæðisbundið hlutverk hans sem miðstöð Íslands í málefnum norðurslóða. Hér er líka framlag vegna framkvæmda við skólahúsnæði við Hólaskóla þar sem er um að ræða viðhaldsúttekt og hönnun á skólahúsnæði Hólaskóla í samræmi við niðurstöður úr útboði. Við gerum líka tillögu um tímabundið framlag til reksturs Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar, það er læsisverkefni í Vestmannaeyjum sem talsvert hefur verið um rætt.

Við leggjum líka til 41 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar og nú verð ég að ítreka það enn og aftur við ráðuneyti að hér þarf að taka til og gera betur. Það er ekki sæmandi að við skulum þurfa að taka á þessu árlega í fjárlaganefnd. Það þarf að fara að ganga frá því hvernig ráðuneytið sér fyrir sér að þessi mál verði og koma þá bara hreint fram með það ef það telur að þetta eigi ekki að vera eins og það er. Ég er hins vegar ósammála ef það yrði niðurstaðan. Engu að síður er mjög mikilvægt að það verði gerður raunverulegur samningur við Austurbrú.

Síðan gerum við tillögu um tímabundið framlag til Huldu – náttúruhugvísindaseturs sem verður staðsett á gíg í Mývatnssveit þar sem verið er að byggja upp mjög fjölþætta einingu, margir sem koma þar að og eiga þar inni, ef maður getur orðað það þannig, ekta setur þar sem margir geta komið að, þar er m.a. starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hér er tillaga um 100 millj. kr. framlag til Alzheimersamtakanna og Parkinsonsamtakanna sem við teljum vera sérstaklega mikilvægt. Eins og ég sagði áðan erum við með til viðbótar 130 millj. kr. sem við teljum að eigi að nýta til samninga við Reykjalund. Við leggjum einnig til 120 milljónir til SÁÁ til viðbótar við það sem áður er í samningum.

Síðan vil ég nefna að við erum hér með Samtökin '78, þar er 15 millj. kr. viðbótarframlag. Þess er vert að geta að samtökin hafa nú fengið varanleg þau framlög sem fjárlaganefnd hefur verið að leggja til þeirra undanfarin ár ásamt því sem forsætisráðherra hefur lagt til. Þau eru því komin með talsvert betri samninga heldur en þau hafa verið með. En við teljum ástæðu til að þau hafi tækifæri til að ráða starfsmann þetta árið til að vinna á móti þessu bakslagi sem við þekkjum öll umræðuna um.

Hér er lagt til 20 millj. kr. tímabundið framlag til að fylgja eftir aðgerðum í tillögu til þingsályktunar um aðgerðir gegn hatursorðræðu sem forsætisráðherra mun leggja fram núna á vorþingi og við teljum að þurfi að sjálfsögðu að vera fjármögnuð. Þessari tillögu er ætlað að ná til almennings, félagasamtaka, barna og ungmenna og einstaklinga sem verða einkum fyrir hatursorðræðu í samfélaginu, m.a. vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Aðgerðirnar lúta að forvörnum, fræðslu, námsefni og vitundarvakningu um samhæfðar aðgerðir gegn hatursorðræðu. Þetta held ég að geti skipt verulega miklu máli. Við leggjum einnig til framlög til Sorgarmiðstöðvarinnar og Hugarafls. Allt eru þetta úrræði sem við teljum að skipti miklu máli.

Virðulegi forseti. Það er margt sem ég gæti minnst hér á. Ég ætla ekkert að neita því að ég varð fyrir vonbrigðum milli umræðna að við skyldum ekki ná því að koma húsnæðistillögum inn og minnkað varasjóðinn sem því nemur. Það var rætt um að það ætti að gerast en það hefur ekki skilað sér. Þær niðurstöður hafa ekki skilað sér. Ég veit ekki hvort þær hafa skilað sér enn þá, en alla vega náðum við því ekki fyrir 2. umr. Ráðherra upplýsti um það að ef það gerðist ekki þá myndi hann óska eftir því að fá fjármuni flutta á milli ára, enda geta þeir ekki lúrt sem fyrirframákveðnir inn á hinum stóra varasjóði fjárlaga.

En ég held að ég fari ekki dýpra í þetta. Það er mjög vel rakið hérna í nefndarálitinu, allt sem lýtur að verðlags- og gengisforsendum, og kannski óþarflega þreytandi að vera að telja upp mikið meira af prósentum og tölum þannig að ég, virðulegi forseti, læt hér staðar numið og lýk máli mínu en geri nú ráð fyrir því að koma hér upp aftur.