Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir fyrra svar. Ég er algerlega sammála því að við í fjárlaganefnd þurfum að sinna eftirlitshlutverki okkar með framkvæmdarvaldinu og fjármálaráðuneytinu hvað þetta varðar. Ég tel einfaldlega algerlega óásættanlegt hvað hagspá Hagstofu Íslands kom seint fram, svo að það liggi fyrir. Ég tel líka óásættanlegt að koma með þessar tillögur varðandi tekjuáætlun ríkissjóðs, byggðar á nýjustu gögnum um þróun skattstofna, svona seint fram. Einnig að ný áform um tekjuhlið fjárlaga hafi komið svona seint fram. Málið er að það lá alltaf fyrir hvenær ætti að leggja fjárlagafrumvarpið fram, það er búið að liggja fyrir allt árið. Þessi vinnubrögð trufluðu mjög mikið störf fjárlaganefndar. Þetta er óásættanlegt og ég tel að við þurfum að senda skýr skilaboð til ráðuneytisins. Það sem ég hef á tilfinningunni hér er að það taki 12 mánuði fyrir stefnumál Flokks fólksins að seytla inn frá breytingartillögu í fjárlögum og þangað til þau verða að tillögu meiri hlutans. Það er greinilegt að Flokkur fólksins er að hafa hér áhrif sem er mjög vel og við fögnum þeim breytingum sem eiga sér stað. Fögnum því líka að núna er búið að hækka frítekjumark öryrkja upp í 200.000 kr. og það var ekki notast við þá afsökun að þetta biði allt heildarendurskoðunar almannatrygginga, sem Flokkur fólksins er búinn að heyra í nánast hverju einasta máli sínu.

Mig langar að spyrja hv. formann fjárlaganefndar eftirfarandi spurningar: Hvers vegna fá að standa óhaggaðar heimildargreinar sem veita fjármálaráðherra heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka? Í yfirlýsingu formanna stjórnmálaflokkanna 19. apríl í ár kemur fram að ekki verði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni en þegar ný löggjöf liggur fyrir muni ákvörðun um mögulega sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verða tekin fyrir á Alþingi. Í ráðuneytinu er unnið í samræmi við framangreind áform. Til hvers þarf þá þessa heimildargrein í fjárlögum? (Forseti hringir.) Er ekki bara gráupplagt að fella hana brott? Það er alltaf hægt að óska eftir heimild Alþingis Íslendinga.