Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hérna var lagt fram fjárlagafrumvarp í haust og formaður fjárlaganefndar segir hérna að það beri skýr merki um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Svo koma 50 milljarða kr. breytingar milli umræðna. Hvernig sýnir það fram á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þegar svona breytingartillögur koma á milli umræðna? Jú, það kom ný þjóðhagsspá. Ég bara skil ekki af hverju það hefur einhver áhrif á útgjöldin. Ég skil að það hafi áhrif á tekjurnar, reiknaðar tekjur, en ég skil ekki hvaða áhrif þjóðhagsspáin hefur á útgjöldin, á það að sinna þeirri þjónustu sem við höfum samþykkt hérna samkvæmt lögum. Hver þjóðhagsspáin er breytir engu um hversu mikið þjónusta við fatlað fólk kostar. Hver þjóðhagsspáin er breytir engu um þjónustuþörfina á Landspítalanum. Það skiptir engu máli. Þess vegna átta ég mig ekki á því að hérna séum við að glíma við málaflokk, húsnæðismál, þar sem verið er að geyma 1,7 milljarða inn í fjárlaganefnd, eða svo er sagt, í einhvern pakka í húsnæðismálum einhvern tíma. Ég skil ekki hvað þeir eru að gera í varasjóðnum akkúrat eins og er. Ég fatta það ekki. Hvernig sýnir það áherslur ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki til þingsins og þjóðarinnar, að fela þessa peninga einhvers staðar inni í varasjóði? Það virðist vera, af umræðu undanfarinna daga, vegna þess að verið er að gera einhverja kjarasamninga. Þá skil ég enn síður hvers vegna verið er að fela einhverja 1,7 milljarða. Við vitum hver upphæðin er, það er búið að segja okkur hver hún er. Það tók ansi langan tíma að draga þá upphæð upp á yfirborðið en hún kom að lokum fram: 1,7 milljarðar í húsnæðismál. Svo er talað um 1,5 milljarða sem fara í húsnæðisbætur en það var eitthvað sem var gert í júní á þessu ári. Það er ekki verið að hækka um 1,5 milljarða fyrir næsta ár, það er búið að gera það. Það er verið að monta sig tvisvar sinnum á sama hlutnum. Ég fatta ekki hvernig þetta fjárlagafrumvarp á að sýna eflingu eins eða neins eða forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í einu eða neinu þegar 50 milljarða tillögur koma á milli umræðna.