Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að svarið verði svona einfalt. Ég skildi ráðherrann þannig að til ráðstöfunar yrðu vonandi í kringum 4 milljarðar á næsta ári í húsnæðismálunum. Það er miður að þetta hafi ekki gengið út og við þurfum ekkert að rekja það hér. Við þekkjum þá sögu sem sögð hefur verið, hvers vegna þetta hefur ekki allt saman gengið út. Aðalmálið er að við komum þessum peningum í vinnu því að það er fólk sem vantar slíkt húsnæði. Það getur vel verið að það þurfi aukna fjármuni til viðbótar; ef þessir tæpu 4 milljarðar verða fluttir yfir þá þurfi viðbótarfjármagn eins og rætt hefur verið.

Varðandi loftslagsmálin þá eru þau yfir og undir og allt um kring. Þau eru ekkert á einum stað eins og hv. þingmaður þekkir. Ég ætla líka að taka undir það að það er alls ekki nógu gagnsætt hvernig við mælum þann árangur sem við teljum okkur vera að ná með þeim aðgerðum sem hér eru undir. Þær eru mjög margar og í mjög mörgum ráðuneytum og allt það, eins og við þekkjum. En svo er gefin út skýrsla af hálfu loftslagsráðherra þar sem áhrifin af því sem verið er að gera eiga að dragast upp. Það á að virka þannig að við getum séð að þeir fjármunir sem við leggjum til tiltekinna aðgerða séu að skila okkur þessu. Við þurfum kannski bara að vera stífari og kalla eftir því.