Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir og mun alveg örugglega koma inn á þetta með ítarlegum hætti í ræðu minni á eftir. Til að nefna eitt dæmi væri t.d. hægt að leggja af hatrið á einkarekstri eða einkaframkvæmd í heilbrigðisgeiranum. Það væri svona einn liður. Það væri skynsamlegt að hætta að senda sárkvalda sjúklinga til útlanda í liðskiptaaðgerðir til að nefna annan lið. Þetta er bara á því sviði, ótrúlega mörg útgjaldasvið eru eftir og af nægu að taka.

Aftur vík ég að því sem ég var að ræða. Nú liggur fyrir með breytingartillögu eða nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að heildarútgjöld á milli ára, þegar búið er að taka tillit til einskiptis útgjalda vegna Covid í fjárlögum í fyrra, verða rúmir 180 milljarðar. Ég vil spyrja hæstv. formann fjárlaganefndar og framsögumann nefndarálitsins hvort hv. þingmaður geti upplýst þingheim um skiptingu þessara 180 milljarða á milli fjárfestingar og reksturs. Það skiptir máli þegar við erum að auka ríkisútgjöld um rétt 15% á ári hvort sá útgjaldaauki fari til hreinnar fjárfestingar eða í rekstur. Ég gef mér að hæstv. formaður fjárlaganefndar þekki þessa skiptingu.