Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á þessar jólagjafir sem ríkisstjórnin er að koma með í þessum breytingartillögum. Við erum að tala um næstum því 54 milljarða í heild sinni, breytingartillögur ríkisstjórnarinnar annars vegar og svo þessir bitlingar úti um allt frá fjárlaganefnd hins vegar, sem er hluti af gamla fyrirkomulaginu í fjárlagavinnunni; það var endalaus röð af fólki að biðja um peninga inn til fjárlaganefndar. Nú erum við af og til að fá fjárlagabeiðnir, ekki nærri því eins margar og áður. Það gerðist á þessu kjörtímabili að allt í einu tók meiri hluti fjárlaganefndar sig til og tók á móti þeim. Áður fyrr var þeim bara vísað upp í ráðuneyti og þar átti að svara fyrir þær á einhvern hátt.

Mér finnst þetta áhugavert, bæði í tilviki þessarar breytingar og í tilviki þess að koma með jólagjöf inni í breytingartillögunum. Þegar ég vann hjá CCP tókum við einmitt eftir því, þegar verið var að gera eitthvað nýtt í leiknum, að það fór rosalega illa í spilendur ef þetta nýja var allt of öflugt og var gert verra í kjölfarið. En það var allt í lagi ef það var gefið út lélegt og gert betra. Þetta er bara einföld sálfræði. Þú kemur fyrst með tillögur sem eru ekki nægilega rúmar og allir verða fyrir vonbrigðum. Ókei, heyrðu, ég kem og laga þetta með smávægilegu aukaframlagi. Þá allt í einu verða allir rosalega ánægðir þrátt fyrir að niðurstaðan hefði verið sú sama hvora aðferðina sem þú notar. Erum við bara að sjá þessa sálfræði í verki hjá ríkisstjórninni, að það er ekki (Forseti hringir.) verið að koma með heiðarlegt fjárlagafrumvarp að hausti til þess að geta komið með sálfræðilegar jólagjafir til þess að þeim líði aðeins betur í desember?