Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:41]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu og eðlilegt að spurt sé af hverju meiri hlutinn kom ekki með þessa breytingartillögu. Ég vil minna á að við höfum, meiri hluti fjárlaganefndar, á undanförnum tveimur eða þremur árum lagt fyrir þingið breytingartillögu til þess að reyna að jafna þennan dreifikostnað og sannast sagna hefur árangurinn ekkert verið glæsilegur í því. Það er ekki vegna þess að það hafi ekki verið vilji til þess að ganga þessa leið eða fylla upp í þetta gat. Orkunotkun, endurbyggingarþörf og fleiri þættir inn í tekjumarkamódelinu eru með þeim hætti að við náum, held ég, ekki án kerfisbreytinga þessu markmiði með því að bæta stöðugt í niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Það sem ég er að segja er að við þurfum að taka tekjumörkin sjálf og hvernig þau eru undirbyggð og endurmeta þau og nota breytingar á eignarhaldi Landsnets til að vinna með þær breytingar. Ástæðan fyrir að við komum ekki með 300–400 milljóna hækkun núna er einfaldlega ekki síst vegna þess að svona getur þetta ekki gengið áfram, við þurfum kerfisbreytingu þarna til að ná þessum markmiðum okkar en ekki bara peninga.