Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:54]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræða um aðhaldskröfu og útfærslu hennar mætti vera miklu ítarlegri og nákvæmari í meðförum fjárlagafrumvarps. Ég ætla ekkert að segja annað. Oft liggur það nú fyrir hvernig ráðuneyti bregðast við aðhaldskröfu og sýna það í sínum kynningum og það er vel gert. En ég er að taka utan um þann þátt hvaða áhrif sú útfærsla hefði á viðkomandi stofnanir sem sagt er að eigi að taka aðhaldskröfu út á. Reyndar finnst mér aðhaldskrafan vera óttalegt vandræðafyrirbæri, ég verð bara að játa það. Hún er, getum við sagt, þessi gegnsæja leið til að halda einhverju aðhaldi í útgjaldaþróun, ég ætla ekkert að hafna því að kostir hennar eru þeir. En það væri kostur ef við hefðum betra tæki til að veita þetta aðhald, t.d. með því að fara bara oftar yfir það hvaða verkefnum er verið að sinna og hverjum mætti hætta, hvaða áherslur ráðherrar liggja í fjárbeiðnum sem við fáum ekki að sjá, sem mér finnst nú algjört aukaatriði oft á tíðum og bara feginn að sjá þær ekki. En hvaða áform hefur ráðherra um að nota þessa peninga og hvað vill hann gera nýtt og hverju vill hann hætta? Við erum allt of léleg í að spyrja að því.