Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[19:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara alveg skýrt: Nei, forstöðumenn heilbrigðisstofnana eru ekki að ýkja vandann, hvorki forstöðumenn þeirra stofnana eða Sjúkrahússins á Akureyri né aðrir forstöðumenn sem við eigum samtal við. Ég hef ekki á nokkurn hátt ástæðu til að ætla að þeir séu á einhvern hátt að draga fram dekkri mynd en þörf er á. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að Sjúkrahúsið á Akureyri sagðist þurfa 500 milljónir og í breytingartillögunum eru 250 milljónir. Ég get náttúrlega komið með þetta klassíska kerfissvar, að síðan eru á öðrum liðum, safnliðum og slíkum þáttum og í viðbótum í frumvarpinu, líka liðir sem munu gagnast Sjúkrahúsinu á Akureyri. En spurningunni um hvort það yrði þjónustuskerðing var einfaldlega varpað til heilbrigðisráðuneytisins og henni svarað með þeim hætti að svo yrði ekki þannig að ég tel að rekstri Sjúkrahússins á Akureyri sé þá þokkalega borgið með þessari viðbótarfjárveitingu auk annarra aðgerða sem boðaðar eru með þessum 12,2 milljörðum sem bætt er við til heilbrigðismála í breytingartillögum milli umræðna.